Enski boltinn

Arsenal græddi mestan pening af öllum félögum í Evrópu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Theo Walcott fagnar marki með Arsenal.
Theo Walcott fagnar marki með Arsenal. Vísir/EPA
Arsenal er það lið í evrópskum fótbolta sem tekur inn mestan pening í kassann á sínum heimaleikjum en þetta kemur fram í nýrri úttekt Deloitte.

Deloitte hefur farið yfir ársreikninga félaga frá 2014-15 tímabilinu og tekið saman hvað þau græða á sölu miða á leikina í viðbót við það sem selst af mat, drykk og öðrum varningi sem er til sölu á heimaleikjum þeirra.

Arsenal tók inn 132 milljónir evra í heimaleikjum sínum 2014-15 eða 16,9 milljarða íslenskra króna. Það gerir um 30 prósent af heildarinnkomu félagsins.

Arsenal yfirgaf Highbury fyrir tíu árum og flutti sig yfir á hinn frábæra Emirates-leikvang. Leikvangurinn tekur 60 þúsund manns í sæti og er einstaka vel hannaður þegar kemur að allri þjónustu við gesti.

Arsenal græddi þannig meira en spænsku risarnir Real Madrid og Barcelona sem koma í næstu sætum. Real Madrid tók inn 129,8 milljónir evra á heimaleikjum sínum á Santiago Bernabéu  en Börsungar höfðu 116,9 milljónir evra í tekjur á heimaleikjum sínum á Camp Nou. Manchester United og Chelsea eru síðan bæði á undan þýska stórliðinu Bayern München.

Það vekur athygli að Liverpool græðir meira á heimaleikjum sínum en Manchester City og það mun aðeins aukast nú þegar Liverpool hefur stækkað Anfield-leikvanginn talsvert.

Fimm af tíu efstu félögunum spila í ensku úrvalsdeildinni en hinar þjóðirnar sem eiga fulltrúa á topp tíu listanum eru Spánn (2 félög), Þýskaland (2) og Frakkland (1).



Félögin sem græddu mest á heimaleikjum sínum 2014-15:

1. Arsenal (Emirates Stadium): 132 milljónir evra

2. Real Madrid (Santiago Bernabéu): 129,8 milljónir evra

3. Barcelona (Camp Nou): 116,9 milljónir evra

4. Manchester United (Old Trafford): 114  milljónir evra

5. Chelsea (Stamford Bridge): 93,1  milljónir evra

6. Bayern München (Allianz Arena): 89,8  milljónir evra

7. Paris Saint-Germain (Parc des Princes): 78  milljónir evra

8. Liverpool (Anfield): 75  milljónir evra

9. Manchester City (Etihad Stadium): 57  milljónir evra

10. Borussia Dortmund (Signal Iduna Park): 54,2  milljónir evra




Fleiri fréttir

Sjá meira


×