Enski boltinn

Stjóri Gylfa er mikill aðdáandi Stjórans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/epa
Bob Bradley, nýráðinn knattspyrnustjóri Swansea City, er mikill aðdáandi hins eina sanna Stjóra, Bruce Springsteen.

Greint var frá ráðningu Bradleys í gær en hann tekur við stjórastarfinu hjá Swansea af Ítalanum Francesco Guidolin. Bradley verður fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem stýrir liði í ensku úrvalsdeildinni.

Hinn 58 ára gamli Bradley var síðast við stjórnvölinn hjá franska B-deildarliðinu Le Havre. Þar áður stýrði hann Stabæk í Noregi við góðan orðstír.

Norska sjónvarpsstöðin TV2 gerði stutt innslag um Bradley meðan hann var við stjórnvölinn hjá Stabæk. Þar talar hann m.a. um aðdáun sína á Bruce Springsteen en þeir eru báðir frá New Jersey.

Í myndbandinu raular Bradley m.a. brot úr lögunum Thunder Road, The Promised Land og No Surrender með Stjóranum.

Að sögn Bradleys voru leikmenn Stabæk farnir að spila Springsteen í búningsklefanum og nú er bara spurning hvort Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hans í Swansea fari sömu leið.

Innslagið í heild sinni má sjá með því að smella hér.


Tengdar fréttir

„Trump er fáviti“

Rokkarinn Bruce Springsteen segir forsetaefni Repúblíkanaflokksins vera hættulegan Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×