Innlent

Vaxtabætur fyrirfram til íbúðakaupa

Heiðar Lind Hansson skrifar
Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, kynnir tillögurnar í Norræna húsinu í gær.
Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, kynnir tillögurnar í Norræna húsinu í gær. mynd/samfylkingin
Samfylkingin hyggst greiða vaxtabætur fyrirfram til næstu fimm ára í þeim tilgangi að styrkja fólk til íbúðakaupa. Tillagan gerir ráð fyrir að sambúðarfólk geti fengið 3 milljónir, einstætt foreldri 2,5 milljónir og einstaklingar 2 milljónir. Einungis þeir sem eiga ekki íbúð eiga rétt á vaxtabótum, en vaxtabótakerfið tekur bæði mið af tekjum og eignum. Þetta var kynnt á blaðamannafundi sem Samfylkingin hélt í Norræna húsinu í gær, en úrræðið er nefnt „Forskotið“ af flokknum.

Fram kom á fundinum að um 15 þúsund einstaklingar á aldrinum 20-39 ára eiga ekki fasteign og er úrræðinu því ætlað að styrkja þennan hóp til að kaupa íbúð. Að sögn Oddnýjar Harðardóttur, formanns Samfylkingarinnar, verður ekki um mikinn kostnaðarauka að ræða fyrir ríkissjóð, en 6,2 milljörðum króna var varið í vaxtabætur á þessu ári samkvæmt fjárlögum. Vaxtabætur geta nú orðið að hámarki 600 þúsund krónur fyrir sambúðarfólk, 500 þúsund fyrir einstætt foreldri og 400 þúsund fyrir einstaklinga.

„Ef við miðum við núverandi launa- og eignamörk og segjum að við séum með 250 pör og 250 einstaklinga sem búa í heimahúsum, þá myndi þessi leið kosta 1,2 milljarða auka miðað við það sem nú er,“ segir Oddný.

Samhliða þessu hyggst Samfylkingin efla leigumarkaðinn. „Við viljum greiða stofnstyrki með 1.000 leiguíbúðum á ári næstu fjögur árin og með 1.000 námsmannaíbúðum á öllu landinu,“ segir Oddný.

„Það er bráðavandi á húsnæðismarkaði núna og þess vegna setjum við fram þessa leið að veita ungu fólki forskot. Á sama tíma munum við byggja upp heilbrigðan leigumarkað þannig að hann verði valkostur.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×