Innlent

Faglærðum kennurum mun fækka

Ásgeir Erlendsson skrifar
Ríflega 70% færri nýnemar hefja nú nám í grunnskólakennarafræðum miðað við fyrir sjö árum. Forseti menntavísindasviðs Háskóla Íslands segir segir þróunina vera mjög alvarlega og telur að hlutfall ófaglærðra kennara muni aukast til muna í komandi framtíð verði ekkert að gert.

Nýnemar sem hófu nám í grunnskólakennarafræði voru 261 árið 2009 en í ár voru þeir einungis 72. Þeim hefur því fækkað um rúm 70% á sjö árum. Nemendum í leikskólakennarafræði hefur einnig fækkað en ekki jafn mikið en athygli vekur að einungis 35 nemendur hófu slíkt nám nú í haust.

Jóhanna Einarsdóttir forseti menntavísindasviðs Háskóla Íslands flutti erindi á ráðstefnu sem bar yfirskriftina, viljum við samfélag án kennara. Hún segir að bregðast verði við þessari þróun.

„Staðan er mjög alvarleg. Það eru mjög stórir árgangar sem eru að fara á eftirlaun og við erum ekki að útskrifa nægjanlega marga kennara til að koma í þeirra í stað.“ Segir Jóhanna.

Ófaglærðir kennarar verða því fleiri á næstu árum.

„Ef ekkert verður gert í málinu, þá verður staðan þannig. “

Jóhanna bendir á að í Finnlandi sé virðing fyrir kennurum mikil og mögulega þurfi að fara í ímyndarherferð hér á landi.

„Kennarastarfið hefur ekki verið talað mjög upp á undanförnum árum og það er ekki mjög hvetjandi fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á að vinna með börnum og ungmennum. Finnar fjárfesta í menntakerfinu. Þeir líta svo á að menntakerfið sé undirstaða velferðar þjóðarinnar og þetta verðum við líka að gera. “ Segir Jóhanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×