Enski boltinn

Franski landsliðsþjálfarinn til varnar Paul Pogba

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba í leiknum á móti Stoke um helgina.
Paul Pogba í leiknum á móti Stoke um helgina. Vísir/Getty
Manchester United gerði franska miðjumanninn Paul Pogba að dýrasta knattspyrnumanni sögunnar í sumar en byrjun Pogba á Old Trafford hefur ekki alveg staðið undir væntingum.

Didier Deschamps, þjálfari Pogba hjá franska landsliðinu, segir að leikmaðurinn þurfi tíma til að aðlagast hlutunum á nýjum stað.

Paul Pogba sýndi styrk sinn í 4-1 sigri á Englandsmeisturum Leicester City á dögunum þar sem hann var valinn maður leiksins en hann klúðraði síðan tveimur úrvalsfærum í jafnteflinu á móti Stoke um helgina.

Pogba er nú með franska landsliðinu en framundan eru leikir í undankeppni HM 2018 á móti Búlgaríu og Hollandi.

„Hann er búinn að breyta um félag og þarf tíma til að komast í takt við nýju liðsfélagana," segir Didier Deschamps og kallar eftir meiri þolinmæði.

Paul Pogba kom til Manchester United frá ítalska liðinu Juventus þar sem hann hjálpaði Juve að vinna ítalska meistaratitilinn fjögur ár í röð.

„Fólk býst alltaf við meiru af Pogba. Það er ekki nóg fyrir hann að vera venjulegur. Hann er leikmaður sem við búumst við að búi til mark í hverjum leik en þær væntingarnar eru bara of miklar," sagði Deschamps.

„Pogba er samt á góðum stað og hann veit alveg hvað hann vill," sagði Deschamps.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×