Skoðun

Verð ég einn á kennarastofunni?

Hjörvar Gunnarsson skrifar
Ég er í kennaranámi við Háskóla Íslands. Þar er ég í ógurlega flottum og frambærilegum hópi fólks sem stefnir að því að vitka draugfúlan æskulýð framtíðarinnar. Hópurinn sem nú er kominn af stað í háskólanáminu erum orðin góðir vinir og hver dagur er eins og ævintýraferð, svo gaman er hjá okkur. Reyndar lendir það yfirleitt á herðum sama fólksins að segja brandarana, við erum nefnilega ekkert rosalega mörg.

Til að viðhalda kennarastétinni í skólum landsins þarf að útskrifa um þrjúhundruð kennara ár hvert, í haust innrituðust um sjötíu nemendur í námið. Reikna má með að af þeim hópi muni einhverjir hellast úr lestinni á fimm ára leið þeirra að leyfisbréfinu og enn frekar má reikna með að einhverjir þeirra sem útskrifist muni aldrei starfa við kennslu. Stór hluti þeirra sem nú starfa við kennslu í grunnskólum landsins eru komnir af léttasta skeiði og sjá nú um prjónastundir og krossgátublöð í hyllingum. Semsagt, á næstu árum munu afar margir kennarar láta af störfum vegna aldurs. Því þarf að grípa til aðgerða.

Ef fram heldur sem horfir verða ekki margir kennarar eftir, jafnvel aðeins ég einn. Það er ekki einveran sem hræðir mig mest við þá stöðu, þvert á móti. Ég get vel haft ofan af fyrir mér og jafnvel hlegið af mínum eigin bröndurum. Hins vegar hræðist ég að alls konar fólk, héðan og þaðan úr samfélaginu verði fengið til að fylla upp í lausar stöður kennara. Ég veit það vel að fólk er ágætt, upp til hópa, en almenningur hefur enga sérfræðiþekkingu á kennslu. Við hvern á ég að ræða mismunandi kennsluaðferðir ef þær sem ég kem til með að nota ganga ekki upp?

Þar sem fólk keppist við að spyrja fulltrúa stjórnmálaflokkana ýmissa spurninga þessa dagana langar mig að freista þess að ná eyrum þeirra. Hvað er til ráða? Hvað getum við gert til að fjölga fólki í kennaranámi og þannig tryggt að ég verði ekki einn á kennarastofunni?




Skoðun

Skoðun

49 ár

Bryndís Guðmundsdóttir,Helga Björg O. Ragnarsdóttir,María Björk Lárusdóttir,Rósa Björk Bergþórsdóttir skrifar

Sjá meira


×