Innlent

Hótaði nágranna sínum með flugbeittum flökunarhníf

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn var handtekinn í Hafnarfirði.
Maðurinn var handtekinn í Hafnarfirði. Vísir/Daníel
Rétt fyrir klukkan 11 í dag var ölvaður karlmaður á fertugsaldri handtekinn í Hafnarfirði fyrir að veitast að nágranna sínum og hóta honum með flugbeittum flökunarhníf. Maðurinn var vistaður í fangageymslu og verður yfirheyrður þegar það rennur af honum að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Þá var þrítug kona handtekin um þrjúleytið í miðborg Reykjavíkur grunuð um að hafa farið inn á nokkur hótelherbergi í miðbænum og stolið ýmsum munum frá erlendum ferðamönnum. Konan gaf skýrslu hjá lögreglu á sjötta tímanum í dag og munirnir sem hún stal eru komnir í leitirnar.

Um 50 mál voru bókuð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á milli klukkan 5 í morgun og þar til klukkan 17 síðdegis. Fjórir ökumenn voru handteknir á tímabilinu grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Þeir voru allir látnir lausir að lokinni skýrslutöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×