Innlent

Þeir sem ekki lækka verð eigi ekki sjéns

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Skór hafa lækkað meira í verði en annar fatnaður.
Skór hafa lækkað meira í verði en annar fatnaður. vísir/anton
Síðustu áramót voru tollar felldir niður af skóm og fatnaði sem eru framleidd utan Evrópu. Í kjölfar frétta af könnun Hagstofunnar þar sem kom fram að verð hafi ekki lækkað í takt við tollaniðurfellingu komu kaupmenn fram í fréttum stöðvar tvö í gær og lýstu yfir undrun sinni enda hafi þeir sannarlega lækkað verðið.



Pétur Þór Halldórsson sem á skóbúðirnar Ecco, Steinar Waage, skór.is og Kaupfélagið, segir mikilvægt að skoða undirvísitölurnar sem sýni að skór hafi lækkað meira en annar fatnaður.

 

„Við höfum reynt að komast að því hjá Hagstofunni hvernig þetta er framkvæmt. Svo virðist vera sem mjög lítið úrtak sé tekið í hverjum mánuði. Í þessu úrtaki er hugsanlega töluvert af skóm sem eru ekki í tollum. Það eru bara rúmlega sextíu prósent af skóm sem báru tolla í upphafi. Það er bara hluti af skónum sem lækka,“ segir Pétur.  

 

Samkvæmt könnunum Samtaka verslunar og þjónustu hafa skór lækkað meira í verði en fatnaður. Því þykir ljóst að ekki eru allir kaupmenn að lækka verðið í samræmi við tollaniðurfellingu. Það kemur Pétri á óvart enda sé söluaukning góð á skóm eftir að verð lækkaði. Þannig nái skókaupmenn að vera samkeppnishæfir á markaði.  

 

„Það sem stendur frammi fyrir fólki í fata- og skógeiranum er að erlendar keðjur eru að koma til landsins. Og ef menn eru ekki á tánum og heiðarlegir og lækka verðið, þá eiga þeir ekki sjéns í samkeppninni,“ segir Pétur.


Tengdar fréttir

Fataverð ekki lækkað í takt við afnám gjalda

Fata- og skóverð hefur lækkað mun minna en sem nemur afnámi tolla og styrkingu krónunnar á síðasta ári. Varaformaður Neytendasamtakanna segir þetta vonbrigði. Hann segir afnám tolla ekki hafa átt að skila sér í vasa kaupmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×