Innlent

Stuðningur Íslendinga við trúarbyggingar Þjóðkirkjunnar dvínað frá 2013

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Dómkirkjan í Reykjavík
Dómkirkjan í Reykjavík
Rúmlega 62 prósent þjóðarinnar eru fylgjandi því að Þjóðkirkjan fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi. Þetta kemur fram í niðurstöðu nýrrar könnunar MMR á viðhorfi Íslendinga til byggingar trúarlegra bygginga hér á landi.

Þátttakendur könnunarinnar tóku afstöðu til spurningarinnar Hversu andvíg(ur) ertu að eftirfarandi trúfélög fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi? Fjöldi svarenda var 985. 

Stuðningur við Þjóðkirkjuna hefur farið þverrandi frá því að reglulegar mælingar hófust árið 2013. Þá naut hún stuðnings rúmlega 67 prósenta landsmanna. Munurinn á þessu ári og því síðasta er þó óverulegur. 

Stuðningur við trúarbyggingar múslima minnkar

Niðurstöðurnar hafa lítið breyst frá síðustu mælingum sem gerðar voru fyrir ári síðan. Helstu breytingarnar eru að viðhorf fólks í garð byggingar á trúarhúsi ásatrúarmanna er ívið jákvæðari, eða tæpum fjórum prósentum. Þá hefur andstaða gagnvart byggingu trúarhúss múslima aukist örlítið. Í fyrra voru 37,6 prósent landsmanna andvíg en nú er hlutfallið 42,1 prósent.

Önnur trúfélög njóta að jafnaði minni stuðnings en Þjóðkirkjan. Af aðspurðum sögðust rúm 54 prósent vera fylgjandi því að Ásatrúarfélagið reisi hér trúarbyggingar, 41,4 prósent voru fylgjandi því að Búddistafélagið fengi að byggja hér trúarbyggingar, 35,5 prósent voru fylgjandi því að Rússneska rétttrúnaðarkirkjan reisti trúarbyggingar en aðeins 35,5 prósent styðja byggingu trúarhúsa Félags múslima á Íslandi.

Innan við helmingur ungs fólks styður trúarbyggingar Þjóðkirkjunnar

Viðhorf fólks í garð trúarbygginga á Íslandi eru ólík eftir aldri og stjórnmálaskoðunum. Athygli vekur að innan við helmingur ungs fólks á aldrinum 18 til 29 ára styður bygginga á trúarhúsum Þjóðkirkjunnar. Elsti aldursflokkurinn, 68 ára og eldri, var sá hópur sem helst studdi Þjóðkirkjuna, eða 88 prósent.

Þess ber jafnframt að geta að samkvæmt könnun sem MMR gerði árið 2013 að 70 prósent þjóðarinnar eru andvíg ókeypis lóðaúthlutunum til trúfélaga.



Stuðningur við byggingar Ásatrúarfélagsins eykst lítillega frá því í fyrra.MYND/MMR
Stuðningsmenn Pírata hlynntari byggingum Ásatrúarfélagsins en Þjóðkirkjunnar

Í könnuninni var einnig skoðað fylgni á milli viðhorfs til trúarbygginga og stjórnmálaskoðana. Þeir sem helst gerðu greinarmun á Þjóðkirkjunni og öðrum trúfélögum eru Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn. Tæp 65 prósenta stuðningsmanna Framsóknarflokksins sögðust til að mynda styðja byggingu á trúarhúsum Þjóðkirkjunnar en aðeins 9 prósent þeirra sögðust styðja trúarbyggingar múslima hér á landi.

Stuðningsmenn Pírata sýna Þjóðkirkjunni minnstan stuðning eða aðeins um 45 prósent. Hins vegar styðja 56,8 prósent þeirra byggingu trúarhúsa Ástatrúarfélagsins

Kirkjur Þjóðkirkjunnar í yfirgnæfandi meirihluta

Á Íslandi eru 376 guðshús sem tilheyra Þjóðkirkjunni.  Eitt búddamusteri er á Íslandi en það er í Kópavogi. Ásatrúarfélagið, Rússneska rétttrúnaðarkirkjan og Félag múslima á Íslandi hafa öll fengið lóðarúthlutun til byggingar nýrra trúarhúsa.

Ásatrúarfélagið hugðist reisa hof í Öskjuhlíðinni en ekki er útlit fyrir að það muni rísa vegna fjárhagsörðugleika félagsins. Bygging á kirkju Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar er þegar hafin en hún mun standa á lóð við Mýrargötu nálægt Reykjavíkurhöfn.

Félag múslima fékk lóð til umráða í Sogamýri árið 2013. Félagið efndi til hönnunarkeppni í fyrra en verðlaunatillagan gerir ráð fyrir húsið muni verða 670 fermetrar í heild sinni.


Tengdar fréttir

Rúmlega fjörutíu prósent andvíg byggingu mosku

Meirihluti er hlynntur því að Þjóðkirkjan fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi en MMR kannaði á dögunum afstöðu Íslendinga til þess að mismunandi trúfélög fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi.

Þriðjungur Íslendinga mjög andvígur mosku

Skiptar skoðanir eru á því meðal landsmanna hvort byggja eigi mosku í Reykjavík. Samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins eru 41,8 prósent andvígir byggingu mosku en 36,6 prósent eru hlynntir því að moskan rísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×