Lífið

Azealia Banks sakar Russell Crowe um líkamsárás

Birgir Olgeirsson skrifar
Russell Crowe og Azealia Banks.
Russell Crowe og Azealia Banks. Vísir/EPA
Bandaríska tónlistarkonan Azealia Bankas hefur kært ástralska leikarann Russell Crowe fyrir líkamsárás. Greint er frá þessu á vef TMZ en málið er rakið til gleðskapar sem Crowe hélt á hótelsvítu í Beverly Hills um liðna helgi.

Banks mætti þangað í boði rapparans RZA úr Wu Tang Clan en hún fer með hlutverk í kvikmynd sem RZA leikstýrir og er að sögn búin að skrifa undir samning við útgáfufyrirtæki rapparans.

TMZ segir Banks hafa gert grín að tónlistarvali Crowe og kallaði hann og aðra gesti „leiðinlega hvíta karla.“

Kona á meðal gesta í gleðskapnum á að hafa varið Crowe og beðið Banks um að hafa sig hæga. Banks á í kjölfarið að hafa hótað Crowe og konunni og sagt: „Þið mynduð elska það ef ég myndi brjóta glasið mitt og stinga ykkur í hálsinn.“

TMZ hefur eftir sjónarvottum að Banks hafi því næst gripið glas en þá hafi Russell Crowe stokkið fram, gripið hana og vísað henni út af svítunni.

Banks ritaði síðar færslu á Facebook-síðu sína þar sem hún hélt því fram að Crowe hefði kyrkt hana, hrækt á hana og notað niðrandi orð í garð hennar. Hún eyddi þessari færslu síðar.

TMZ segir Banks hafa farið á lögreglustöð í Beverly Hills þar sem hún lagði fram kæru á hendur Crowe vegna líkamsárásar.

Umboðsmaður hennar Raýmani sagði á Twitter að hún muni tjá sig um málið eftir að hafa jafnað sig á þeim svívirðingum og því ofbeldi sem hún varð fyrir.

Ástralski grínistinn Jim Jeffries sem var í gleðskapnum segir Russell Crowe var saklausan af ásökunum Banks. Hann segir hana hafa verið stjórnlausa og að Crowe hafi ekki gert neitt af sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×