Innlent

Megináhersla á jafna stöðu allra kynja í mannréttindastefnu borgarinnar

Jakob Bjarnar skrifar
Ýmsir komu að gerð nýrrar mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar.
Ýmsir komu að gerð nýrrar mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. visir/ernir
„Til hamingju Reykvíkingar með nýja mannréttindastefnu borgarinnar sem var samþykkt samhljóða hér í borgarstjórn rétt í þessu. Til hamingju Ísland,“ tilkynnti Líf Magneudóttir á Facebooksíðu sinni nú fyrir stundu.

Um er að ræða býsna viðamikið plagg en þar segir meðal annars að að hafa skuli jafnræði borgaranna og mannréttindi að leiðarljósi í öllu starfi og hefur Reykjavíkurborg einsett sér að vera í „fararbroddi í mannréttindamálum með megin áherslu á jafna stöðu allra kynja.“

Með þessari mannréttindastefnu er lagt upp með að unnið verði gegn „margþættri mismunun og lögð áhersla á heildstæða sýn í þágu borgarbúa þar sem margir tilheyra fleiri en einum þeirra hópa sem hún nær til.“

Kynjapólitík áberandi í mannréttindastefnunni

Ekki er ofsagt að nokkuð sé lagt upp úr kynjapólitík í mannréttindastefnunni en hún er meðal annars byggð á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, jafnréttislögum: „Áherslan á jafnan rétt kvenna og karla skal vera sýnileg í allri starfsemi borgarinnar og staða kynja á að skoðast sérstaklega í öllum þeim hópum sem stefnan nær til.“

Í öðrum kafla er farið nánar í saumana á því hvað þetta þýðir. Við skipan í nefndir skulu hlutföll kynja vera jöfn og aldrei minna en 40 prósent þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Við úthlutun fjármagns skal taka mið af þörfum og viðhorfum kynja og reina áhrif ákvarðana á stöðu þeirra.

Í nýrri mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar er kveðið á um að barist verði gegn vændi og nektarbúllum.visir/valli
„Reykjavíkurborg nýtir aðferðir og tæki kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar til þessa.“

Ætla að sporna gegn vændi og nektarstöðum

Þá segir jafnframt að Reykjavíkurborg ætli sér að vinna gegn kynbundnu ofbeldi, hvort sem það er andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt og skal öll starfsemi borgarinnar taka mið af þessu markmiði.

Þá einsetur Reykjavíkurborg „sér að vinna gegn kynferðislegu ofbeldi, vændi og mansali. Af þeim sökum er mikilvægt, í samvinnu við lögreglu, að sporna gegn rekstri nektardansstaða og rekstri sem snýst um vændiskaup.“

Þá segir einnig að Reykjavíkurborg leggi áherslu á að borgarmyndin taki tillit til allra kynja í skipulagi til dæmis í þeim útilistaverkum sem sett eru upp.

Ýmsir komu að gerð nýrrar mannréttindastefnu

Að sögn Lífar gætir ýmissa nýjunga í stefnunni. Hópurinn sem kom að gerð mannréttindastefnunnar var skipaður af borgarráði. Mannréttindaráð kom hins vegar ekkert að málum. Ragnar Hansson var skipaður af Bjartri framtíð, Sabine Leskopf tók þátt fyrir hönd Samfylkingar, Kjartan Jónsson var fyrir Pírata og Magnús Sveinbjörnsson kom í hópinn frá Sjálfstæðisflokki.

Líf er afar sátt við nýja mannréttindastefnu, það skipti sköpum að jaðarsettir hópar njóti sömu réttinda og séu metnir að verðleikum.
Líf segir að Framsókn hafi einnig haft aðkomu að málinu en fulltrúar flokksins hafi verið ýmsir á tímabilinu. Fyrst var Sigríður Nanna Jónsdóttir tilnefnd en hún baðst lausnar vegna anna. Þá var tilnefndur Vilhjálmur Sörli Pétursson sem sat einn fund en þurfti frá að hverfa vegna kynjasjónarmiða. Að lokum kom Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir inn í hópinn og tók Jóna Björg Sætran síðan við af henni þegar Sveinbjörg fór í fæðingarorlof. Starfsmaður hópsins var Halldóra Gunnarsdóttir sérfræðingur frá mannréttindaskrifstofu.

Líf himinlifandi með nýja stefnu

En, af hverju er Líf svona ánægð með þessa endurskoðuðu nýsamþykktu mannréttindastefnu?

„Við höfum lagt okkur fram við að gera hópa sem oft fá of litla umfjöllun eða hreinlega gleymast - sýnilega. Á þetta til dæmis við um fatlað fólk, börn, fólk af erlendum uppruna og hinsegin fólk. Það skiptir sköpum að jaðarsettir hópar og hópar með lágværa rödd njóti sömu réttinda og aðrir hópar og séu metnir að verðleikum í borgarsamfélaginu. Við eigum öll tilverurétt í Reykjavík. Reykjavíkurborg þarf að endurspegla fjölbreytni borgarbúa í öllu sínu starfi og vinna heildstætt eftir samræmdri mannréttindastefnu til dæmis eins og í mannaráðningum og þjónustuveitingu. Með stefnunni er lagður grunnur að því að fólki sé ekki mismunað og að allir hópar hljóti viðurkenningu og séu sýnilegir. Að þjónusta sé markvissari og laus við fordóma eða mismunun og að gagnkvæmur skilningur skapist á ólíkum aðstæðum fólks eða lífssýn,“ segir Líf í samtali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×