Innlent

Fjósamenn skrifuðu upp handrit í pásum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Handritin fylgdu vesturförum yfir hafið á nýjar slóðir.
Handritin fylgdu vesturförum yfir hafið á nýjar slóðir. Mynd/Gísli Sigurðsson
Árnasafni hefur áskotnast handritsbrot af Njálu frá bókasafnara af íslenskum ættum sem búsettur er í Seattle. Í hirslum safnarans var einnig að finna skinnblöð án leturs.

„Við höfum vitað af þessum bókasafnara í dágóðan tíma og reynt að komast í samband við hann. Það tókst loksins núna fyrir tilstilli Arnar Arnar, ræðismanns í Minneapolis,“ segir Gísli Sigurðsson, rannsóknarprófessor á Árnastofnun.

Handritið er frá 19. öld en grunur leikur á því að það hafi verið skrifað af Guðlaugi og Guðmundi Magnússonum. Þeir bræður voru vinnumenn á Hafursstöðum og Breiðabólsstað á Fellsströnd.

„Þeir bræður hafa nýtt frítíma sinn í að rita þetta og verið nokkuð iðnir við kolann,“ segir Gísli.

„Handritin eru ekki aðeins merkileg því þau geyma gamlan texta heldur eru þau heimild um menningarstarfsemi á þessum tíma. Þetta var svo til það eina sem fólk gerði sér til andlegrar upplyftingar.“

Kápan er úr skinni en sá möguleiki er fyrir hendi að þar sé á ferðinni svokallaður uppskafningur, það er skinn sem áður hefur verið skrifað á, eldri texti skafinn af og það notað sem kápa. Vonast er til að rannsóknir geti leitt hið sanna í ljós.

Handritin verða geymd í handritahirslu Árnastofnunar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×