Innlent

Stórhættuleg skemmdarverk á hjólum barna á Akranesi

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Börn á Akranesi hafa slasast vegna hrekkja.
Börn á Akranesi hafa slasast vegna hrekkja. vísir/getty
Í haust hafa komið upp þrjú til fjögur tilvik þar sem átt hefur verið við öryggisbúnað á hjólum nemenda í Grundaskóla á Akranesi. Slík atvik hafa einnig komið upp í öðrum skólum og við íþrótta- og frístundamiðstöðvar í öðrum sveitarfélögum. Eitt barn við skólann féll fram fyrir sig og skrámaðist í andliti.

Sigurður Arnar Sigurðsson, skólastjóri Grundaskóla, segir þessa hegðun stórhættulega en skólinn sendi tilkynningu til foreldra barna á mið- og unglingastigi skólans. „Vissulega er þetta áhyggjuefni því það eru til dæmi þar sem barn hefur meitt sig. Þetta er stórhættulegur leikur og aðalatriðið er að fyrirbyggja þetta. Eflaust átti þetta að vera grín en þeir sem framkvæma þetta eru kannski ekki að gera sér grein fyrir alvarleikanum. Því miður virðist þetta ekki bara vera að ganga hér hjá okkur, ég hef heyrt af þessu vandamáli víðar,“ segir Sigurður.

Upphafið má rekja til myndbanda á Youtube þar sem átt er við öryggisbúnað reiðhjóla þar sem eigandinn svo dettur kylliflatur. Enn hafa engin bein brotnað vegna hrekkjanna í Grundaskóla en Sigurður segist hafa heyrt af alvarlegri slysum annars staðar. „Við ákváðum að bregðast við með því að senda út tilkynningu og við þurfum að sameinast um að uppræta þetta. Ég get ekki ímyndað mér að sá sem er að stunda þetta geri sér grein fyrir hvaða skaða hann gæti valdið.“ Sigurður segist vona að hrekkjunum sé nú lokið en skólinn mun þó áfram fylgjast með svæðinu þar sem hjólin er geymd. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×