Erlent

Elsta risapandan í haldi manna er öll

Anton Egilsson skrifar
Risapandan Jia Jia.
Risapandan Jia Jia. Vísir/EPA
Risapanda sem talin er vera sú elsta sem nokkurn tímann hefur verið í haldi manna er öll. Hún var 38 ára að aldri. Hún bar nafnið Jia Jia og hafði síðan árið 1999 búið í skemmtigarðinum Ocean Park í Hong Kong. BBC greinir frá þessu. 

Var henni lógað af starfsmönnum skemmtigarðsins en heilsufari hennar hafði hrakað mikið seinustu daga og vikur. Ákvörðunin um að lóga Jiu Jiu var tekin með það að leiðarljósi að lina þjáningar hennar. Hún hafði dagana á undan haft litla sem enga matarlyst og þá átti hún orðið erfitt með gang.

„Hún var meðlimur fjölskyldunnar okkar og hennar verður sárt saknað. Hún þjónaði sem mikilvægur sendiherra sinnar dýrategundar” segir í tilkynningu frá skemmtigarðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×