Innlent

Óvissustigi vegna jarðskjálftanna í Mýrdalsjökli aflýst

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Katla er ein stærsta eldstöð landsins.
Katla er ein stærsta eldstöð landsins. vísir/vilhelm
Óvissustigi vegna jarðskjálftanna í Mýrdalsjökli var aflýst í dag eftir að hafa verið í gildi í tvær vikur. Jarðskjálftavirkni á svæðinu er þó enn meiri en á sama tíma síðustu ár.

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi virkjaði viðbragðsáætlun vegna eldgoss í Mýrdalsjökli 30. september síðastliðinn þegar kröftug jarðskjálftahrina varð í Kötlu. Stórir jarðskjálftar mældust þá á svæðinu en á aðeins fimm dögum urðu yfir fimm hundruð skjálftar þar.

„Það hafa ekki mælst neinir skjálftar neitt af ráði í Kötlu núna í þónokkurn tíma þannig að við töldum það að það væri rétt að fara af óvissustigi núna en við erum tilbúnir að fara í það aftur ef að eitthvað breytist. Þannig að við höldum áfram vöktun og Veðurstofan og vísindamenn halda áfram vöktun á fjallinu,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli.

Þrátt fyrir að verulega hafi dregið úr jarðskjálftavirkni á svæðinu er hún enn nokkur og meiri en á sama tíma síðustu ár. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×