Innlent

Mikil breyting verður á ásýnd borgarinnar á næstu árum

Jóhann K. Jóhannsson skrifar

Reykjavíkurborg áætlar að á næstu árum og áratugum verði byggðar yfir 17.000 íbúðir í Reykjavík. Á kynningarfundi borgarstjóra kom fram að nú þegar vanti um þrjú þúsund íbúðir í borginni til að mæta eftirspurn og að byggja verði um þúsund íbúðir ár hvert eftir að þeirri þörf hefur verið mætt.



Í uppbyggingaráætlun Reykjavíkurborgar má búast við því að mikil breyting verði á ásýnd borgarinnar á nokkrum svæðum. Til að mynda í Bryggjuhverfinu þar sem fyrirtækið Björgun kemur til með að víkja fyrir árslok og sömuleiðis í Vogahverfinu þar sem fyrirtæki og hús fá að víkja fyrir nýrri íbúðabyggð.



„Staðan er auðvitað sú að það er mikil eftirspurn eftir húsnæði í Reykjavík en góðu fréttirnar eru þær að við erum bæði búin að skipuleggja mikið af íbúðarlóðum. Það er verið að byggja í borginni frá vestri til austurs og mjög fjölbreyttar íbúðir. Bæði söluíbúðir, mjög mikið og líka leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, íbúðir fyrir eldri borgara, búseturéttaríbúðir og það er einmitt svona þessi fjölbreytta blanda sem við viljum sjá rísa,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sem kynnti uppbyggingaráætlun borgarinnar í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.



Með þeim breytingum sem áformaðar eru segir Dagur að fyrirtæki sem fara illa saman við íbúðabyggð fá lóð í jaðri borgarinnar.



„Einhver fyrirtæki, þau plássfreku og þau sem fara illa saman við íbúa byggð. Við sjáum þau fyrir okkur á Esjumelum og á Hólmsheiðinni og á þeim atvinnusvæðum sem við erum að tefla fram,“ segir Dagur.



Dagur segir að Reykjavík sé að vaxa og mest inn á við og að það sé í takt við þau svör sem borgin hafi fengið varðandi búsetuóskir.



„Fólk vill búa nálægt verslun og þjónustu. Geta sótt í lykil atriði helst gangandi eða að minnsta kosti ekki þurfa að fara um langan veg,“ segir Dagur.



Uppsöfnuð þörf eftir húsnæði er í Reykjavík og eftir hrun voru nánast engar nýframkvæmdir. Dagur segir að strax þurfi að ráðast í byggingu um 3000 íbúða í Reykjavík og 1000 íbúða ár hvert eftir það.



Leigendur hafa á undanförnum misserum kvartað undan háu leiguverði á markaði sem meðal annars er vegna skorts á leiguhúsnæði.



„Minnsta kosti viljum við ekki að skorturinn þrýsti verðinu upp. Það er síðan byggingarkostnaðurinn sem ræður miklu en auðvitað líka eftirspurnin,“ segir Dagur.



Í mars síðastliðnum skrifuðu Alþýðusamband Íslands og Reykjavíkurborg undir viljayfirlýsingu um byggingu á 1000 íbúðum á næstu fjórum árum en markmið þeirra er að bjóða upp á ódýrt leiguhúsnæði fyrir tekjulágarfjölskyldur.



„Við sjáum eftirspurn í öllum hópum. Öldruðum fer fjölgandi. Það hafa aldrei verið fleiri á biðlista eftir stúdentaíbúðum og þess vegna þurfum við þetta uppbyggingarátak,“ segir Dagur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×