Enski boltinn

Chelsea fór illa með meistarana | Sjáðu mörkin

Smári Jökull Jónsson skrifar
Chelsea vann öruggan 3-0 sigur á Englandsmeisturum Leicester á Stamford Bridge í 8.umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Chelsea tókst ekki að vinna Leicester á síðasta tímabili en það var ljóst strax frá upphafi að liðið ætlaði sér sigur í dag.

Strax á 7.mínútu kom Diego Costa heimamönnum yfir með marki úr vítateignum eftir hornspyrnu. Kasper Schmeichel var í boltanum en náði ekki að verja.

Eden Hazard kom Chelsea svo í 2-0 fyrir leikhlé þegar hann slapp í gegn, lék á Schmeichel í markinu og renndi boltanum í netið.

Chelsea voru mun betra liðið og hefðu getað skorað fleiri mörk en meðal annars átti David Luiz tvær aukaspyrnur sem sköpuðu hættu og endaði önnur þeirra í stönginni.

Í síðari hálfleik vildi Leicester fá vítaspyrnu þegar Jeffery Schlupp féll í teignum en ekkert var dæmt. Bæði lið fengu færi til að skora og undir lok leiksins rak Victor Moses svo síðasta naglann í kistu meistaranna þegar hann skoraði gott mark eftir frábært samspil við Nathaniel Chalobah.

Lokatölur 3-0 og Chelsea færist upp í 5.sæti deildarinnar með 16 stig en Leicester fer niður í 13.sæti og er með 8 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×