Innlent

Handtekinn tvisvar sinnum fyrir heimilisofbeldi á einu kvöldi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Lögreglan handtók mann tvisvar sinnum fyrir heimilisofbeldi í austurborginni í gær. Í seinna skiptið hafði lögreglan afskipti af manninum skömmu fyrir klukkan níu í gærkvöldi, en þá hafði hann verið laus í rúma klukkustund eftir að hafa verið handtekinn fyrir heimilisofbeldi fyrr um daginn.

Þá voru tveir menn til viðbótar handteknir fyrir heimilisofbeldi í gærkvöldi og í nótt samkvæmt dagbók lögreglu.

Lögreglu barst tilkynning um þjófnað í söluturni í austurborginni á sjöunda tímanum í gær. Þjófurinn komst undan og segir lögreglan málið í rannsókn. Auk þess var maður handtekinn á lokuðu athafnasvæði Eimskipa við Sundahöfn.

Minnst fjórir ökumenn voru stöðvaðir í gær grunaðir um akstur undir áhrifum. Þá reyndist einn þeirra eftirlýstur.

Ökumaður slasaðist þegar hann missti stjórn á bíl sínum á Hringbraut á móts við Þjóðminjasafnið laust fyrir klukkan þrjú í nótt, og hafnaði á steinvegg. Ökumaður , sem var einn í bílnum, sat fastur í bílflakinu og kviknaði eldur út frá vélinni, en snarráðir vegfarendur náðu að slökkva hann áður en ökumanninn sakaði.

Slökkviliðið kom svo á vettvang og beitti klippum til að ná honum úr flakinu og var hann fluttur í sjúkrabíl á slysadeild Landspítalans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×