Innlent

Veikindi kosta borgina milljarð

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Skammtímaveikindi kosta skóla- og frístundasvið alls 333 milljónir króna.
Skammtímaveikindi kosta skóla- og frístundasvið alls 333 milljónir króna.
Veikindafjarvistir starfsmanna Reykjavíkurborgar árið 2015 kostuðu borgina yfir milljarð. Þetta kom fram á borgarráðsfundi í gær þar sem fyrirspurn Framsóknar og flugvallarvina var svarað.

Um er að ræða bæði skammtíma- og langtímaveikindi en ekki er tiltæk sundurliðun þar á milli. Starfsmenn velferðarsviðs voru oftast veikir, svo starfsmenn umhverfis- og skipulagssviðs en menningar- og ferðamálasvið verða sjaldnast fyrir veikindum. Kostnaður vegna afleysinga í langtíma- og skammtímaveikindum skiptist þannig að 473 milljónir króna fóru á skóla- og frístundasvið vegna langtímaveikinda og 333 milljónir vegna skammtímaveikinda. Þá fóru 207 milljónir á velferðarsvið og 26,7 milljónir á íþrótta- og tómstundasvið. Alls þurfti borgin því að greiða um 1.040 milljónir vegna veikinda.

Í svari Dags B. Eggertssonar við fyrirspurninni segir meðal annars að kostnaðurinn nemi 2,7% af heildarlaunakostnaði Reykjavíkurborgar og að borgin sé með viðverustefnu sem hafi það að markmiði að styðja við og hlúa að starfsmönnum vegna fjarveru frá vinnu vegna veikinda, slysa eða áfalla.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×