Innlent

Orðin leið á hrakyrðum fundarstjóra

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi.
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi. vísir/vilhelm
Óviðunandi er að formaður borgarráðs misnoti hlutverk sitt til þess að hrakyrða fulltrúa minnihlutans. Þetta er fullyrt í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina í fundargerð borgarráðs frá því í gær.

„Þetta er leiðindamál. Mér finnst mikilvægt að þegar menn eigast við í pólitík þá geti menn átt kurteisleg samskipti þótt þeir séu ekki sammála um málefnin,“ segir Kjartan Magnússon, fulltrúi Sjálfstæðisflokks. Kjartan segir að þótt menn séu ósammála um málefnin þurfi samskipti þar fyrir utan að vera í lagi. Það hafi hins vegar ekki tekist í þessu tilfelli.

Björn Blöndal, formaður borgarráðs. Mynd/Hari
Kjartani finnst fundarstjórn formanns vera ókurteisleg gagnvart fulltrúum minnihlutans. „Sem fundarstjóri á hann ekki að gera upp á milli manna eftir því í hvaða flokki þeir eru. Að sjálfsögðu er fundarstjóri líka borgarráðsmaður með pólitískar skoðanir og hann hefur fullan rétt á að tjá sig en hann á að gera það innan almennra fundarskapa.“

S. Björn Blöndal, formaður borgar­ráðs, fullyrðir sjálfur að vinnubrögð hans stangist ekki á nokkurn hátt á við fundarsköp heldur sé verið að reyna að koma í veg fyrir að hann beiti sér í pólitískri umræðu.

„Mér finnst þetta mjög ómakleg gagnrýni satt best að segja,“ segir Björn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×