Innlent

Fimmtán mánaða fangelsi fyrir ítrekuð brot gegn eiginkonu og stjúpdætrum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn braut ítrekað gegn konunni og stjúpdætrum sínum.
Maðurinn braut ítrekað gegn konunni og stjúpdætrum sínum. vísir/valli
Karlmaður sem ákærður var fyrir fjölmörg brot á hendur eiginkonu sinni og tveimur stjúpdætrum á sex ára tímabili var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi. Honum var gert að greiða konunni 200 þúsund krónur í bætur og stjúpdætrum sínum samtals 1,7 milljónir. Hann var hins vegar sýknaður af ákærulið er sneri að nauðgun gegn konunni.

Maðurinn var sakaður um að hafa beitt stjúpdætur sínar kynferðislegri áreitni, meðal annars með því að senda þeim fjölmörg smáskilaboð þar sem hann viðhafði kynferðislegt og klámfengið orðbragð. Mörg skilaboðanna innihéldu jafnframt hótanir um kynferðisbrot sem voru til þess fallnar að vekja ótta um líf, heilbrigði og velferð, að því er segir í ákærunni. Aldur stúlknanna er ekki tiltekinn í ákærunni.

Maðurinn var úrskurðaður í nálgunarbann í Héraðsdómi Reykjavíkur 7. mars síðastliðinn, sem í kjölfarið var staðfest af Hæstarétti. Hann braut hins vegar nálgunarbannið samdægurs með því að setja sig í samband við mæðgurnar og með því að fara inn í anddyrið á stigagangi þeirra.

Í ákærunni segir að maðurinn hafi hringt 566 sinnum í heimasíma konunnar á tímabilinu 7. mars til 22. mars. Þá hafi hann sent stjúpdætrum sínum á tímabilinu 7. mars til 1. júní samtals 636 smáskilaboð.

Mæðgurnar fóru fram á alls átta milljónir króna í bætur, en sem fyrr segir er manninum gert að greiða þeim alls tæplega tvær milljónir króna. Þá  var honum gert að greiða einn þriðja af sakarkostnaði málsins sem nam 8,5 milljónum króna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×