Innlent

Hæstiréttur staðfestir úrskurð um nálgunarbann og brottvísun af heimili

Anton Egilsson skrifar
Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. Vísir/GVA
Hæstiréttur dæmdi í gær karlmann í fjögurra vikna nálgunarbann gagnvart fyrrum sambýliskonu sinni og til brottvísunar af heimili en maðurinn er grunaður um að hafa beitt hana heimilisofbeldi. Staðfesti Hæstiréttur þar með úrskurð Héraðsdóms Suðurlands.

Í ákvörðun Lögreglustjórans á Suðurlandi sem setti fram kröfu um nálgunarbannið kemur fram að að kvöldi 26. september síðastliðinn hafi lögreglu borist tilkynning um meint heimilisofbeldi mannsins gagnvart konunni. Þá hafði konan flúið að heimili þeirra beggja eftir áflog þeirra á milli.

Segist hafa verið slegin með hurðakarmi

Við skýrslutöku greindi konan frá því að hún hafi legið sofandi í rúmi þeirra beggja þegar maðurinn hafi veist að henni með ofbeldi og meðal annars slegið hana með hurðakarmi, svokölluðu gerefti.

Upphaf átakanna kvað konan mega rekja til þess að hún hafi leitað eftir að fá afnot af hluta sængur sem hún og maðurinn deildu, en við það hafi hann reiðst. Bar manninum ekki saman við konuna um þessa frásögn hennar en hann segir hana hafa átt upptökin að áflogunum með því að hafa slegið hann í andlitið.

Ýmsir áverkar á konunni 

Áverkar konunnar samkvæmt framlögðu læknisvottorði fyrir dómi voru meðal annars rispur á brjótsholi og læri og eymsli í hársverði. Þá hafi hún einnig verið með eymsli á handlegg.  Segir í vottorðinu að að skrámurnar geti vel hafa komið við barsmíðar með hlut eins og konan hafi lýst, það er með spýtu.

Í nálgunarbannsúrskurðinum felst að manninum er bannað  að koma nálægt húsi konunnar á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus mælt frá miðju hússins. Þá er honum bannað að veita henni eftirför, heimsækja hana, nálgast á almannafæri sem nemur 50 metra radíus frá staðsetningu hennar hverju sinni, eða vera með nokkru öðru móti í beinu sambandi við hana.

Dóm Hæstaréttar má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×