Innlent

Stjórnvöld hafa ekki markað sér stefnu í málefnum trans- og intersex barna

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra. Vísir/Daníel
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ekki sett sérstaka stefnu í málefnum trans- og intersexbarna, né heldur aflað upplýsinga um stöðu þeirra í skólum og þá hefur það ekki upplýsingar um mótttökuáætlanir einstakra skóla vegna trans- og intersex barna.

Þetta kemur fram í svari Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur, þingflokksformanns Vinstri grænna.

Illugi segir að ekki séu til upplýsingar um aðgerðaáætlanir einstakra skóla gegn einelti, en Svandís spurði hvort sérstaklega sé gert ráð fyrir hinsegin börnum í áætlunum gegn einelti í skólum og hvort einhver stefna sé fyrir hendi varðandi andlega heilsu og félagslega stöðu hinsegin barna.

„Slíkar aðgerðaáætlanir eiga að snúa að einelti óháð uppruna eða tilurð þess,“ segir Illugi í svari sínu.

Illugi segir að þrátt fyrir að ekki sé sérstök stefna í málefnum hinsegin barna hafi ráðherra sé að finna stefnu í jafnréttismenntun og umfjöllun um mismunun í skólastarfi í aðalnámskrám leik-, grunn-, og framhaldsskóla þar sem meðal annars sé fjallað um mismunun vegna kyns eða kynhneigðar.

„Er því ekki sérstaklega fjallað um stöðu transbarna, intersex-barna eða hinsegin barna vegna mismununar frekar en annarra hópa, svo sem vegna aldurs, búsetu, fötl­unar, kyns, kynhneigðar, litarháttar, lífsskoðana, menningar, stéttar, trúarbragða, tungumála, ætternis eða þjóðernis.“

Aðspurður segir Illugi það ekki á stefnuskránni að gera áætlun til þriggja ára um kannanir og úttektir um stöðu hinsegin barna í skólum.  

„Ráðuneytið hefur ekki aflað upplýsinga um stöðu transbarna í skólum, hvorki á leik-, grunn- né framhaldsskólastigi. Ráðuneytið hefur engar skráðar upplýsingar um kynhneigð eða kynvitund barna í leik-, grunn- eða framhaldsskólum. Slík könnun er ekki á þriggja ára áætlun ráðuneytisins,“ segir Illugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×