Innlent

Nýrnaveiki í laxaseiðum

Svavar Hávarðsson skrifar
Sjókvíaeldi á norsku eldiskyni er afar umdeilt.
Sjókvíaeldi á norsku eldiskyni er afar umdeilt.
Nýrnaveiki kom upp í tveimur seiðaeldisstöðvum í sumar og nú í haust. Slátra þurfti mörg þúsund laxaseiðum. Fyrra tilvikið kom upp hjá Bæjarvík ehf. í Tálknafirði og hitt hjá Arctic Smolt, sem er með starfsemi þar í grenndinni.

Gísli Jónsson, sérgreinalæknir fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun, staðfesti nýrnaveikismitin í samtali við Vísi sem sagði fyrst frétt af þessu í gær. Gísli segir þar að nýrnaveiki skjóti upp kollinum reglulega. Tvær stöðvar greindust með smit núna, engin í fyrra en 2014 komu upp tvö tilfelli.

Landssamband veiðifélaga sendi frá sér fréttatilkynningu í kjölfarið þar sem lýst er þungum áhyggjum af fréttum af nýrnaveiki. „Eru þær fregnir í sterkri andstöðu við það sem haldið hefur verið fram að íslenskt fiskeldi sé sjúkdómafrítt og ógni ekki stofnum villtra fiska. Þá harmar LV að ekki hafi verið upplýst um að sjúkdómar hafi komið upp í umræddum stöðvum strax í vor, heldur hafi þurft eftirgrennslan fjölmiðla til.

Landssambandið krefst þess að ekki verði frekari leyfi til eldis gefin út fyrr en farið hefur fram ítarleg áhættugreining á eldi frjórra norskra laxa með tilliti til mengunar, sjúkdóma og erfðamengunar.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Regnbogi í ám um alla Vestfirði

Landssamband veiðifélaga lýsir yfir þungum áhyggjum af hugsanlegu yfirvofandi umhverfisslysi. Stjórnvöld sögð fljóta sofandi að feigðarósi.

Miðstöð fiskeldis verður á Ísafirði

Sviðsstjóri fiskeldismála hjá Hafrannsóknastofnun verður staðsettur á Ísafirði, ásamt sérfræðingum, samkvæmt ákvörðun Gunnars Braga Sveinssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×