Innlent

Átta ára varð fyrir kynþáttafordómum á Akureyri: „Hvítir leika með hvítum og brúnir með brúnum“

Sveinn Arnarsson skrifar
Erika Rakel Egilsdóttir ásamt móður sinni, Katrínu Mörk Melsen.
Erika Rakel Egilsdóttir ásamt móður sinni, Katrínu Mörk Melsen. vísir/auðunn
Átta ára stúlka varð fyrir kynþáttafordómum af jafnaldra sínum á skólalóð á Akureyri fyrr í haust. Var stúlkunni tjáð af jafnaldranum að brúnir léku sér við brúna og hvítir við hvíta. Fræðslustjóri Akureyrar brýnir fyrir öllum þeim sem umgangast börn að gæta orða sinna í hvívetna.

Atvikið átti sér stað fyrir skömmu í frímínútum skólans. Katrín Mörk Melsen, móðir stúlkunnar, segir þessi ummæli barnsins auðvitað ekki komin frá því sjálfu. Líkast til heyri barnið þessi ummæli útundan sér og apar þau upp.

„Börnin auðvitað læra það sem fyrir þeim er haft og því hefur þessi talsmáti komið frá einhverjum. Einhvers staðar hefur barnið heyrt þetta og notað á dóttur mína. Börn á þessum aldrei vita í sjálfu sér ekkert hvað þau eru að segja með þessu,“ segir Katrín.

„Við þurfum bara að vera á varðbergi fyrir þessu og fræða börnin okkar um að orð sem þessi geta meitt.“

Alls ekki einsdæmi

Soffía Vagnsdóttir, fræðslustjóri Akureyrarbæjar, segir miklu máli skipta að kenna börnum umburðarlyndi og að þessi hegðun sé ekki liðin innan skóla bæjarins. „Við búum í fjölbreyttum heimi og fjölbreytileikinn okkar hér á Akureyri er styrkur okkar. Í skólum okkar á Akureyri kennum við börnunum að virða fjölbreytileikann,“ segir Soffía.

„Einnig vinnum við gegn öllum fordómum, hvort sem það eru fordómar gagnvart litarhætti, holdafari, stærð, hárlit eða öðru. Það er markvisst kennt í okkar skólum. Því er mikilvægt að foreldrar og forráðamenn barna hjálpi okkur svo allir fái notið sín,“ bætir Soffía við.

Katrín Mörk segir þetta ekki vera einsdæmi heldur hafi dóttir hennar einnig þurft að hlusta á svona tal í fyrra, þegar hún var í 2. bekk.

„Einnig veit ég um fleiri börn sem þurft hafa að þola viðlíka ummæli. Vonandi erum við ekki komin á einhvern stað þar sem ekki er hægt að snúa ofan af svona hugsunarhætti,“ segir Katrín Mörk. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×