Innlent

Býður í bíltúr og þiggur sögu í staðinn

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Árni Aðalbjörnsson, betur þekktur sem bakarinn í Gamla bakarínu, keypti fornbíl fyrir fimmtán árum, af tegundinni Ford, sem framleiddur var árið 1930.



Bíllinn er keyrður yfir milljón kílómetra en dugar þó vel í stutta bíltúra sem Árni býður eldri borgurum Ísafjarðarbæjar í.



„Ég hafði ekki eins gaman af því að vera einn á honum. Svo ég byrjaði á því að bjóða eldri borgurum Ísafjarðar í bíltúr. Þau segja mér sögu í staðinn frá því þau voru ung. Elsti sem hefur farið í bílinn var 103 ára og svo er fólk alveg niður í sjötugt. Ég hef farið með mjög marga, sjötíu til áttatíu manns í bíltúr á þessum bíl.“



Árni fer með fólkið um bæinn og vinsælt er að fara fyrir framan húsið sem það ólst upp í. Þar stillir það sér upp fyrir framan bílinn og Árni tekur mynd af þeim sem hann gefur þeim svo.



En hann á líka sjálfur eintak af hverjum farþega og hefur rammað myndirnar inn – og hluta af þeim má sjá uppi á vegg í Gamla bakarínu.



Elsti farþeginn sem hefur farið í bíltúr með Árna er Torfhildur Torfadóttir. Hún var 103 ára.



„Ég sótti hana upp á Hlíð og svo þegar hún kom út og ég sagði henni að við færum í bíltúr á elsta bíl á Vestfjörðum og hún væri elsti Íslendingurinn. Þá sagði hún að bílarnir hafi verið fallegri í gamladaga, að hljóðið væri fallegt og lyktin góð. „Maður yngist bara upp við þetta,“ sagði hún.“



Árna finnst gaman að heyra sögur fólksins sem hefur byggt upp landið. Um lífið og tilveruna í oft erfiðum aðstæðum og við erfið lífsskilyrði. Sumar sögur eru sorglegar og aðrar fullar af hlýjum minningum. En hvað ætlar hann að gera við allar þessar sögur?



„Þær eru bara inni í höfðinu á mér og hafa verið þar. Svo hugsa ég mér þegar ég verð fullorðinn maður þá punkta ég þetta niður.“

Er þetta er saga vestfirðinga? „Já, þetta eru hetjurnar sem hafa byggt upp bæinn.“

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×