Innlent

Spurði hvort ríkisstjórnin beiti sér fyrir auknum ójöfnuði

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. Vísir/Ernir
„Vill ekki formaður Sjálfstæðisflokksins vera hreinskilinn og segja einfaldlega að þetta sé stefna flokksins, að hann sé ánægður með þennan árangur, með aukinn ójöfnuð?“ sagði Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag og beindi fyrirspurn sinni til Bjarna Benediktssonar.

Bjarni svaraði því til að af orðum Helga að dæma sé Samfylkingin orðin „harðsvíraður vinstri flokkur“.

„Menn spyrja: Af hverju segið þið það ekki bara beint út að þið viljið að sumir hafi það betra en aðrir? Ja, ég segi bara á móti: Af hverju segið þið það ekki bara beint út að ef sumum mun ganga eitthvað betur en öðrum sé það ykkar stefna að jafna þann mun aftur með sköttum? Segið þið það bara beint út. Það má enginn hafa það betra en annar. Það er sanngjarnt að þá sé staðan jöfnuð með sköttum. Af hverju segið þið það ekki bara beint út?“ sagði Bjarni.

Helgi ítrekaði fyrirspurn sína í kjölfarið og spurði jafnframt hvort Alþingi og ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að auka á ójöfnuð með því að láta þá tekjuhærri fá meira og þá ríkustu hafa stærri hluta af eignunum en alla aðra. Auðlegðarskatturinn hefði til dæmis getað fylgt höftunum og skilað þannig tugum milljarða í sameiginlega sjóði og dregið út auknum ójöfnuði.

„Það sem við töldum rétt að gera var einfaldlega það að skattar sem höfðu verið kynntir til sögunnar sem tímabundnir skattar mundu renna sitt skeið. Við töldum það líka rétt að afnema undanþágur fyrir slitabú sem vinstri stjórnin hafði fest í lög. Með því tókum við um 40 milljarða af slitabúum og fjármálafyrirtækjum sem við hækkuðum skattana á,“ sagði Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×