Innlent

„Klárlega ekki opinber stefna Viðreisnar að banna búrkur“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þau Pawel Bartoszek og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir frambjóðendur Viðreisnar eru ekki sammála um hvort banna eigi búrkur hér á landi.
Þau Pawel Bartoszek og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir frambjóðendur Viðreisnar eru ekki sammála um hvort banna eigi búrkur hér á landi. vísir
Það er ekki stefna Viðreisnar að banna búrkur hér á landi enda er það ein af meginstoðum frjálsyndrar stefnu að ríkið hafi ekki afskipti af trú og trúmálum. Þetta segir Pawel Bartoszek frambjóðandi flokksins í í Reykjavíkurkjördæmi norður í samtali við Vísi spurður út í orð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur oddvita flokksins í Suðvesturkjördæmi um að hún vilji banna búrkur.

Þorgerður kvaðst vera á móti búrkum á grundvelli kvenfrelsis og jafnréttis í viðtali við Stundina og í Morgunútvarpinu á Rás 2 á föstudag ítrekaði hún þessa skoðun sína.

„Ég nálgast þetta út frá frjálslyndi, til þess að verja konur, til að passa upp á að kvenfrelsi virki og að við erum ekki hér á Íslandi með eitthvað feðraveldi. [...] Ég virði hins vegar þær skoðanir sem aðrir hafa komið að í þessum málum,“ sagði Þorgerður Katrín á Rás 2.

Þá ræddi hún málið einnig í Harmageddon á föstudag en hlusta má á viðtalið í spilaranum hér að neðan.

Vegur ekki nógu þungt gegn þeim meginrétti að fólk geri það sem það vilji ef það skaðar ekki aðra

„Það er klárlega ekki opinber stefna Viðreisnar að banna búrkur,“ segir Pawel. Hann kveðst því ekki sammála Þorgerði Katrínu í þessu máli en hann skilji hennar nálgun og virði hana.

 

„En ef það kæmi til þess að greiða atkvæði um það hvort það ætti að setja lög sem myndu banna fólki að hylja andlit sitt á almannafæri þá myndi ég ekki greiða atkvæði með þeim lögum,“ segir Pawel.

Í stefnu Viðreisnar er skýrt kveðið á um að trú og trúarbrögð eigi að vera án afskipta ríkisins. Ríkið eigi þannig ekki að skipta sér af skráningu í trúfélög og tímabært sé að aðskilja ríki og kirkju.

Búrkíni var bannað í nokkrum frönskum strandbæjum fyrr í sumar en bannið var síðar fellt úr gildi.vísir/getty
„Já, ég myndi segja að þetta væri ein af meginstoðum frjálslyndisstefnu en til að gæta sanngirni þá held ég að Þorgerður Katrín nálgist þetta líka út frá hugmyndum um persónueinkenni fólks,“ segir Pawel og nefnir einnig þá nálgun að búrkan sé árás feðraveldisins á réttindi kvenna.

„Eins og ég segi ber ég virðingu fyrir þessari nálgun en þetta vegur ekki nógu þungt gegn þeim meginrétti að fólk eigi að gera það sem það vill ef það skaðar ekki aðra,“ segir Pawel.

Líklegt að lög um bann við búrkum myndu standast ákvæði mannréttindasáttmálans


Davíð Þór Björgvinsson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstól Evrópu skrifar um búrkur og bann við þeim á almannafæri á vefsíðu sína í gær í tilefni af umræðunni sem kom upp í liðinni viku. Hann rifjar upp dóm Mannréttindadómstólsins árið 2014 vegna laga sem sett voru í Frakklandi og banna fólki að hylja andlit sitt á almannafæri.

„Tíðum er vísað til þessara laga sem „búrkulaganna“ þótt þau hafi annars að geyma almennt bann við að hylja andlitið á almannafæri (og þar með aðrar tegundir fatnaðar múslimskra kvenna, sem og annan fatnað og útbúnað, sem hylur anditið með áþekkum hætti). Ástæðan er m.a. sú að greinargerðir með lögunum og umræður í franska þinginu sýna að búrkur og niqab voru mönnum ofarlega í huga þegar lögin voru sett,“ segir Davíð í grein sinni á vefnum en skemmst er frá því að segja að Mannréttindadómstóllinn taldi frönsku lögin standast ákvæði mannréttindasáttmálans um friðhelgi einkalífs, trúfrelsi, tjáningarfrelsi og bann við mismunun.

Davíð Þór Björgvinsson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.
Davíð telur því líklegt að ef sambærileg lög yrðu sett hér á landi að þau myndu einnig standast ákvæði mannréttindasáttmálans. Davíð segir dóminn ítarlega rökstuddan og stiklar aðeins á stóru í grein sinni. Hins vegar segir hann forsendur niðurstöðunnar athyglisverðar ekki síst fyrir þær sakir að dómurinn hafnaði þeim rökum franska ríkisins að lögin væru meðal annars reist til að gæta að sjónarmiðum og vernd kvenna og jafnrétti kynjanna.

„Á hinn bóginn féllst dómurinn á þau rök franska ríkisins sem kennd hafa verið við la vivre ensemble og bannið stæðist að því marki sem um væri að ræða vernd réttinda og frelsis annarra, en það er samkvæmt ákvæðum sáttmálans ein möguleg réttlæting fyrir því að takmarka réttindi einstaklinga vegna annarra hagsmuna. Þetta má orða svo að það sé réttur annarra í opnu lýðræðislegu samfélagi að sjá andlit þeirra samborgara sinna sem á vegi þeirra verða á almannafæri og í samskiptum við þá,“ segir Davíð.

Í sumar vakti það mikla athygli þegar nokkrir strandbæir í Frakklandi bönnuðu sundklæðnað múslimskra kvenna, svokallað búrkíní. Manuel Valls forsætisráðherra landsins sagði bannið brjóta gegn gildismati Frakka og fannst mörgum það orka tvímælis einmitt í ljósi laganna sem banna fólki að hylja andlit sitt.

Bannið var þó afturkallað í lok ágúst af æðsta stjórnsýsludómstól Frakklands en áður en til þess kom hafði lögreglan í Nice meðal annars látið konu á ströndinni þar klæða sig úr búrkíní vegna bannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×