Innlent

Viðreisn vill opinbera fyrirtæki sem leiðrétta ekki kynbundinn launamun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá fundi Viðreisnar í dag.
Frá fundi Viðreisnar í dag. Vísir
Viðreisn kynnti í dag það frumvarp sem yrði fyrsta þingmál flokksins eftir Alþingiskosningarnar í haust. Flokkurinn vill útrýma óútskýrðum launamun kynjanna og gera það opinbert ef fyrirtæki og stofnanir greiða starfsmönnum sínum ólík laun vegna kynferðis en ekki málefnalegra sjónarmiða.

Frumvarpið var kynnt á sérstökum blaðamannafundi Viðreisnar í dag. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á jafnréttislögum og lögum um ársreikninga þess eðlis að fyrirtækjum og stofnununum með 25 eða fleiri starfsmenn er gert skylt að undirgangast jafnlaunavottun samhliða ársreikningsskilum.

Jafnlaunavottun er mælikvarði frá Staðlaráði Íslands sem notaður er til að mæla óútskýrðan kynbundinn launamun. Fyrirtæki og stofnanir með 25 starfsmenn eða fleiri munu þurfa að undirgangast þessa mælingu árlega og verða niðurstöðurnar birtar samhliða ársreikningi.

Þannig yrði það gert opinbert ef fyrirtæki og stofnanir greiða starfsmönnum sínum ólík laun vegna kynferðis en ekki málefnalegra sjónarmiða. Því yrðu gert opinbert ef fyrirtæki og stofnanir fremja lögbrot í launastefnu sinni.

Þannig verði „almannahagsmunir settir í forgang og óútskýrður kynbundinn launamunur upprættur“ að mati Viðreisnar.

Kynbundinn launamunur, Samkvæmt nýjustu launakönnun VR er um tíu prósent kynbundinn launamunur á meðal félagsmanna félagsins. Á síðasta ári mældist kynbundinn launamaður á meðal félagsmanna Bandalags háskólamanna 11,7 prósent árið 2015.

Kynbundinn launamunur er sá munur sem er á launum karla og kvenna að teknu tilliti til áhrifaþátta á laun á borð við aldur, starfsaldur, starfsstétt, atvinnugrein, menntun, mannaforráð, vaktavinna og vinnutími.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×