Innlent

Skaut sig í fótinn við fuglaveiði

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Maðurinn var að búa sig undir fuglaveiði
Maðurinn var að búa sig undir fuglaveiði Vísir/Vilhelm
Um klukkan sjö í morgun barst lögreglu tilkynning um mann sem hafði orðið fyrir slysaskoti á Helluvaðssandi, norðaustan við Hellu. Maðurinn var að búa sig undir fuglaveiði þegar skot hljóp úr byssu, sem hann var með, í fót hans. Sjúkrabifreið kom á staðinn og flutti manninn á slysadeild, en ekki liggur fyrir hve alvarlega hann er slasaður. 

Þetta var meðal verkafna lögreglunnar á Suðurlandi um helgina, en samkvæmt tilkynningu frá embættinu voru slys og ófrarir áberandi.

Karlmaður handarbrotnaði aðfaranótt sunnudags eftir að hafa hoppað af orði niður á stól og þaðan í gólfið á veitingastað á Selfossi. Maðurinn var fluttur á heilsugæslustöðina á Selfossi til skoðunar.

Þá axlar- og fótbrotnaði kona eftir að hafa velt vélsleða á Langjökli við Skálpanes. Konan var í snjósleðaferð og hafði velt sleðanum en náð að koma honum á réttan kjöl aftur. Stuttu síðar valt sleðinn aftur með þeim afleiðingum að konan slasaðist. Hún var flutt með sjúkrabíl á slysadeild Landspítalans í Fossvogi.

Rétt fyrir klukkan fjögur aðfaranótt laugardags barst lögreglunni tilkynning þess efnis að maður hefði veist að ungri konu við skemmtistaðinn Fróns á Selfossi. Til orðaskipta hafði komið milli þeirra fyrir utan skemmtistaðinn. Konan lýsti manninum sem 180 sentímetra háum með snoðklippt hár. Maðurinn var enskumælandi og taldi hún líklegt að hann væri pólskur. Lögreglan á Suðurlandi biður þá sem geta veitt upplýsingar um þetta atvik að hafa samband í síma 444 2000 eða í tölvupósti á sudurland@logreglan.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×