Innlent

Fall kranans rannsakað sem refsimál

Gissur Sigurðsson skrifar
Kraninn féll til jarðar afar skammt frá pylsuvagni Bæjarins bestu.
Kraninn féll til jarðar afar skammt frá pylsuvagni Bæjarins bestu. Vísir/GVA
Atvikið þegar byggingakrani féll í grennd við pylsuvagninn við Tryggvagötu nýverið og tvær stúlkur áttum fótum sínum fjör að launa, er rannsakað sem refsimál.

Beðið er eftir skýrslu Mannvirkjastofnunar um almannahættu og að henni fenginni verður tekin ákvörðun um ákæru. Lögreglan og Vinnueftirlitið sendu fulltrúa strax á vettvang og strax vaknaði grunur um að öryggisbúnaður, sem á að koma í veg fyrir hífingu ef hlassið er of þungt, hafi verið tekinn úr sambandi.

Einnig kom fram að kraninn var að lyfta tvöfalt meiri þyngd en hann á að geta lyft. Að sögn Benedikts Lund lögreglufulltrúa hafa skýrslur verið teknar af öllum hlutaðeigandi og er nú beðið skýrslu frá Mannvirkjastofnun.

Eins og kom fram í fréttum okkar fyrir helgi hefur vinnueftirlitið orðið þess áskynja oftar en einu sinni að slíkur öryggisbúnaður á byggingakrönum sé aftengdur til þess að þeir geti híft þyngri hlöss en þeir eiga að geta með fullu öryggi, en það uppgötvaðist áður en slys hlytist af, og var engin sóttur til saka í þeim tilvikum.

Hins vegar voru bæði verkstjóri og byggingastjóri sóttir til saka fyrir þó nokkrum árum eftir að ótryggur vinnupallur hrundi með þeim afleiðingum að ungur maður beið bana. Eftir það var eftirlit með vinnupöllum stór aukið.


Tengdar fréttir

Algjört sjokk, grétu og hringdu á lögregluna

Vinkonurnar Bryndís Arna Bridde og Tinna Marín Sigurðardóttir sátu á bekk við Bæjarins Beztu í miðbæ Reykjavíkur þegar krani féll á planið á tólfta tímanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×