Innlent

Víkingaaldarsverðið sló í gegn á Þjóðminjasafni

Þorgeir Helgason skrifar
Mikill fjöldi var samankominn í Þjóðminjasafninu í gær þegar víkingaaldarsverðið var til sýnis. Áætlað er að sverðið sé yfir þúsund ára gamalt.
Mikill fjöldi var samankominn í Þjóðminjasafninu í gær þegar víkingaaldarsverðið var til sýnis. Áætlað er að sverðið sé yfir þúsund ára gamalt. Vísir/Ernir
„Þetta er glæsileg sýning og veglega að henni staðið,“ sagði Ólafur Kristján Valdimarsson, ein gæsaskyttnanna sem fundu víkingaaldarsverðið við Ytri-Ása í Skaftárhreppi á Suðurlandi fyrir um mánuði.

Þjóðminjasafnið stóð fyrir sýningu á sverðinu í gær en líklega var þetta eina tækifærið í rúmlega ár til þess að berja sverðið augum.

„Fyrst fannst sverðið og járnstykki sem menn telja vera sigð en svo fundust í seinna skiptið bein og aðrir munir. Búið er að greina munina og er um að ræða spjótsodd, hníf og hugsanlega örvarodd. Þegar rannsóknum lýkur verður sverðinu komið fyrir á Þjóðminjasafninu,“ segir Uggi Ævarsson, minjavörður Suðurlands.

Næst á dagskrá er að rannsaka efni sverðsins en búið er að röntgenmynda það.

Sandra Sif Einarsdóttir, sérfræðingur í forvörslu hjá Þjóðminjasafninu, segir sverðið vera með þeim heillegustu sem fundist hafa.

„Þetta sverð er með hjöltu þannig að hægt er að greina það til gerðar og þessi gerð sverðs er frá tímabilinu 950 til 1025. Þessi fundur hefði þó sagt okkur miklu meira hefði sverðið fundist í heilu kumli,“ segir Sandra.

Sverðið er það tuttugasta og þriðja sem finnst frá því tímabili en aðeins sextán hafa varðveist með hjöltum.

Gunnar Karlsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, telur að eigandi sverðsins hafi verið Hróar Tungugoði. Líklega hafi bær hans Ásar verið á sömu slóðum og Ytri-Ásar eru í dag. Sverðið fannst á víðavangi á árbakka í landi Ytri-Ása.

Samkvæmt Íslendingasögunum og Landnámu var Hróar Tungugoði einn helsti valdsmaðurinn á seinni hluta tíundu aldar á Suðurlandi.

„Mér þykir það góð saga að þetta sé sverðið hans Hróars og vel líklegt. Það er merkilegt hvað búið var vel um hann er hann var drepinn. Þeir hafa sýnt honum þá virðingu,“ segir Snorri Tómasson, einn af fjölda gesta sem lögðu leið sína á Þjóðminjasafnið til að berja forngripina augum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir

Með merkari fornleifafundum síðustu ára

"Það eru svo fá sverð sem hafa fundist hér og því er þetta mikill fengur fyrir sögu þjóðarinnar,“ dr. Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands.

Eigna má sverðið Hróari Tungugoða

Sverðið er frá 10. öld fannst á slóðum sem þar sem bær goðorðsmannsins Hróars Tungugoða stóð mögulega. Prófessor emeritus í sagnfræði kastar fram þeirri tilgátu að höfðingi eins og Hróar hafi hugsanlega átt sverðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×