Enski boltinn

Gylfi lagði upp mark í enn einu tapi Swansea

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wayne Routhledge fagnar eftir að hafa skallað boltann í mark Stoke eftir fyrirgjöf Gylfa.
Wayne Routhledge fagnar eftir að hafa skallað boltann í mark Stoke eftir fyrirgjöf Gylfa. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson lagði upp mark Swansea City í 3-1 tapi fyrir Stoke City á Bet365 vellinum í lokaleik 10. umferðar í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Gylfi var fyrirliði Swansea í leiknum í kvöld. Wilfried Bony kom Stoke yfir á 3. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi eftir sendingu Joe Allen. Bony skoraði þarna gegn sínu gömlu félögum.

Forysta Stoke entist aðeins í fimm mínútur. Á 8. mínútu sendi Gylfi boltann fyrir á kollinn á Wayne Routhledge sem skallaði framhjá Lee Grant í marki Stoke. Þetta var önnur stoðsending Gylfa á tímabilinu en hann hefur komið með beinum hætti að fjórum af níu mörkum Swansea í vetur.

Staðan var 1-1 í hálfleik. Swansea-menn gátu vel við þá stöðu unað en leikmenn Stoke skutu þrisvar sinnum í marksúlur gestanna í fyrri hálfleik; Charlie Adam tvisvar sinnum og Marko Arnautovic einu sinni.

Alfie Mawson varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark á 55. mínútu og Bony skoraði svo sitt annað mark á 73. mínútu og gulltryggði sigur Stoke.

Swansea er áfram í nítjánda og næstneðsta sæti deildarinnar en Stoke, sem hefur unnið þrjá leiki í röð, er komið upp í 12. sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×