Enski boltinn

Conte: Frábært fyrir þjálfara að sjá svona frammistöðu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Conte og lærisveinar hans eru komnir upp í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Conte og lærisveinar hans eru komnir upp í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. vísir/getty
Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea, hefur ástæðu til að vera glaður þessa dagana en hans menn hafa nú unnið fjóra leiki í röð í ensku úrvalsdeildinni.

Mörk frá Eden Hazard og Diego Costa tryggðu Chelsea 0-2 útisigur á Southampton í dag en stigin þrjú skiluðu Chelsea upp í 4. sæti deildarinnar.

„Við vissum að okkar biði erfið prófraun gegn sterku liði sem er á góðu skriði. Það er mikilvægt að vinna leiki sem þessa, sjálfstraustið, vinnusemin og trúin á verkefnið eykst,“ sagði Conte eftir leikinn í dag.

Conte breytti um leikkerfi eftir töpin fyrir Liverpool og Arsenal og sú breyting hefur svínvirkað. Chelsea hefur unnið fjóra leiki í röð með markatölunni 11-0 og stimplað sig af krafti inn í toppbaráttuna.

„Við sköpuðum mörg færi. Það er fullkomið þegar framherjarnir skora og varnarmennirnir halda hreinu. Leikmennirnir áttu þetta skilið; þeir hafa lagt hart að sér á æfingum,“ sagði Conte.

„Það er frábært fyrir þjálfara að sjá svona frammistöðu,“ bætti Ítalinn við.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×