Enski boltinn

Southgate kemur Smalling og Shaw til varnar eftir ummæli Mourinho

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Chris Smalling og Luke Shaw eru meiddir.
Chris Smalling og Luke Shaw eru meiddir. vísir/getty
Gareth Southgate, bráðabirgðastjóri enska landsliðsins í fótbolta, kom Chris Smalling og Luke Shaw, leikmönnum Manchester United, til varnar eftir gagnrýni José Mourinho, knattspyrnustjóra United, í þeirra garð.

Mourinho efaðist um vilja varnarmannanna til að leggja allt í sölurnar fyrir Manchester United eftir að þeir misstu af 3-1 sigurleiknum gegn Swansea á sunnudaginn vegna meiðsla.

Smalling er meiddur á fæti en Shaw spilaði á móti Fenerbache á útivelli í Evrópudeildinni síðastliðinn fimmtudag. Southgate sagði á blaðamannafundi í gær að augljóslega væru einhver meiðsli að trufla þá báða.

Hvorki Smalling né Shaw voru valdir í enska liðið sem mætir Skotlandi í undankeppni HM 2018 á föstudaginn og Spáni í vináttuleik í næstu viku.

„Menn verða að gera allt fyrir liðið. Það er munur á hugrökkum leikmönnum, sem gera allt fyrir liðið, og þeirra sem kvarta yfir minnsta sársauka,“ sagði Mourinho um Smalling og Shaw eftir leikinn gegn Swansea en Southgate varði enska tvíeykið í gær.

Aðspurður hvort þeir væru ekki traustir karakterar svaraði enski landsliðsþjálfarinn: „Það finnst mér ekki. Luke þekki ég mjög vel og hann er að koma til baka eftir mjög erfið meiðsli. Það er oft auðvelt að dæma menn þegar þú þekkir þá ekki nógu vel.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×