Enski boltinn

Liverpool á toppnum í fyrsta sinn í tvö ár: „Ég veit hvað gerðist fyrir tveimur árum“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jürgen Klopp er ekki búinn að tapa síðan í annarri umferð.
Jürgen Klopp er ekki búinn að tapa síðan í annarri umferð. vísir/getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, vildi ekki tala of mikið um titilmöguleika liðsins eftir að það valtaði yfir Watford, 6-1, í ensku úrvalsdeildinni í gær. Liverpool er á toppnum í deildinni þegar hlé verður nú gert á henni vegna landsleikjaviku.

Liverpool hefur ekki verið á toppnum í ensku úrvalsdeildinni í rúm tvö ár eða síðan liðið var hársbreidd frá því að vinna hana á vormánuðum 2014 með Luis Suárez með sinn besta mann. Allir Liverpool-menn þekkja þá sorgarsögu; Steven Gerrard rann og draumurinn dó gegn Crystal Palace.

„Ég veit að allskonar hlutir gerðust hérna fyrir tveimur árum þegar liðið var nálægt þessu en þetta er ekki liðið fyrir tveimur árum. Þetta er heldur ekki liðið fyrir 25 árum. Við erum algjörlega nýtt lið og höldum okkur ísköldum. Við erum í frábærri stöðu en ekkert meira en það,“ sagði Klopp við fréttamenn eftir leikinn.

Þjóðverjinn sagði að engin pressa væri á liðinu eftir aðeins ellefu leiki en það er með eins stigs forskot á Chelsea. Manchester City og Arsenal eru svo með 24 stig, tveimur stigum á eftir lærisveinum Klopps.

„Við töluðum ekki einu orði um möguleikann að komast á toppinn. Fyrir mér er miklu mikilvægara að við lítum út eins og lið sem getur unnið leiki. Þegar ég kom hingað bað ég um þolinmæði og trú. Það er ekki hægt að biðja um eitthvað öryggi eftir ellefu leiki. Það er bara ekki í boði,“ sagði Jürgen Klopp.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×