Erlent

Stjórn Erdogans Tyrklandsforseta ræðst gegn Kúrdum á þingi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Átta manns létu lífið í sprengjuárás í Diyarbakir í gær.
Átta manns létu lífið í sprengjuárás í Diyarbakir í gær. Nordicphotos/AFP
Leiðtogar HDP-flokks Kúrda á tyrkneska þinginu, þau Selahattin Demirtas og Figen Yukdekdag, hafa verið handtekin ásamt um tíu öðrum þingmönnum flokksins.

Nokkrum klukkustundum síðar varð sprengjuárás í Diyarbakir átta manns að bana. Meira en hundrað særðust. Diyarbakir er helsta borgin í Kúrdahéruðum landsins.

Handtökur Kúrdaþingmannanna koma í beinu framhaldi af víðtækum hreinsunum í stjórnkerfinu, þar sem tugþúsundir hafa verið reknar og þúsundir handteknar.

Selahattin Demirtas og Figen Yuksekdag, leiðtogar HDP-flokks kúrda.Nordicphotos/AFP
Allt þetta fólk hefur verið sakað um tengsl við Gülen-hreyfinguna sem stjórn Receps Tayyips Erdogan forseta telur hafa staðið á bak við stjórnarbyltingartilraun í sumar.

Kúrdar tilheyra einnig þeim hópi sem Erdogan lítur á sem andstæðinga sína, þótt ekki hafi þeir til þessa verið tengdir sérstaklega við stjórnarbyltingartilraunina.

Stjórnarherinn hefur hins vegar átt í átökum við Kúrda í suðausturhluta landsins, þar sem Kúrdasveitir hafa vopnast gegn vígamönnum Íslamska ríkisins handan landamæranna í Sýrlandi. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×