Innlent

Vöðvasullur dúkkar upp

Svavar Hávarðarson skrifar
Vöðvasullur er hættulaus mönnum.
Vöðvasullur er hættulaus mönnum. Vísir/JSE
Eftirlitsdýralæknar Matvælastofnunar hafa orðið varir við vöðvasull í sauðfé frá nokkrum bæjum á yfirstandandi sláturtíð. Greining þeirra hefur verið staðfest af sérfræðingum á Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum.

Vöðvasullur er ekki hættulegur mönnum en veldur tjóni vegna skemmda á kjöti og hugsanlega óþægindum fyrir féð.

Vöðvasullur er lirfustig band­orms, sem lifir í hundum og refum og greindist fyrst hér á landi í lömbum árið 1983. Á árunum fram til 1990 sást töluvert af honum. Síðan hafa aðeins fundist stök tilfelli. Ástæða aukinnar tíðni gæti verið að misbrestur hafi orðið á bandormahreinsun hunda eða að bandormurinn geti leynst í refum.

Annar og verri bandormur, sullaveikibandormurinn, hefur ekki greinst í sauðfé hér síðan 1979 og ormahreinsun hunda vegna hans hefur verið lögboðin í áratugi. Matvælastofnun brýnir fyrir hundaeigendum þá skyldu að láta orma­hreinsa hunda sína árlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×