Enski boltinn

Heldur sigurganga Chelsea áfram? | Upphitun fyrir leiki dagsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fimm leikir fara fram í 11. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Liðin í 4. og 6. sæti deildarinnar, Chelsea og Everton, mætast á Brúnni. Chelsea hefur unnið fjóra leiki í röð með markatölunni 11-0 á meðan Everton vann kærkominn sigur á West Ham um síðustu helgi.

Everton hefur fengið á sig næstfæst mörk í deildinni (8) en vörn liðsins fær verðugt verkefni að reyna að stoppa Diego Costa, markahæsta leikmann deildarinnar.

Topplið Manchester City fær Middlesbrough í heimsókn á Etihad. Eftir sex leiki án sigurs hafa strákarnir hans Peps Guardiola tekið sig taki og unnið tvo góða sigra í röð. Fyrst 0-4 sigur á West Brom og svo 3-1 sigur á Barcelona í Meistaradeild Evrópu.

Boro er í 15. sæti deildarinnar með 10 stig en liðið vann langþráðan sigur á Bournemouth í síðustu umferð.

Sunderland, sem hefur ekki enn unnið leik í deildinni, sækir Bournemouth heim. Lærisveina Davids Moyes bíður erfitt verkefni gegn liði Bournemouth sem hefur náð í 10 stig á heimavelli á tímabilinu. Sunderland hefur aftur á móti aðeins skorað tvö mörk á útivelli í vetur.

Stoke City getur unnið fjórða leikinn í röð þegar liðið sækir West Ham United heim á London Stadium.

Nýi heimavöllurinn hefur ekki reynst Hömrunum gjöfull það sem af er tímabili. West Ham vann þó síðasta heimaleik sinn, 1-0 gegn Sunderland.

Þá fá Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley Crystal Palace í heimsókn.

Burnley náði í stig á Old Trafford í síðustu umferð á meðan Palace tapaði fyrir Liverpool. Það var þriðji tapleikur liðsins í röð.

Upphitun fyrir leiki dagsins má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×