Innlent

Mikill viðbúnaður hjá gæslunni vegna togara sem „týndist“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar var send til að leita að togaranum.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var send til að leita að togaranum. Vísir/Vilhelm
Mikill viðbúnaður var hjá Landhelgisgæslunni fyrr í morgun þegar togari datt út úr ferilvöktun djúpt norður af landinu. Í tilkynningu frá gæslunni kemur fram að þá þegar hafi verið farið í frekari eftirgrennslan eftir togaranum en tilraunir til þess að ná sambandi við hann í gegnum millibylgju og gervihnattasíma báru ekki árangur.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar óskaði því eftir því að nærstödd skip, sem voru í um 40 sjómílna fjarlægð, myndu einnig reyna að ná sambandi við togarann en það bar heldur ekki árangur. Því var þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, kölluð út sem og björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Siglufirði.

Varðskipinu Tý var einnig gert viðvart og beðið um að halda á staðinn en Týr var staddur á Vestfjörðum. Að auki voru nærstödd skip beðin um að gera sig klár í að halda í átt að togaranum.

Um klukkan 11:40 tókst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar svo að ná sambandi við togarann og reyndist allt vera í lagi um borð þrátt fyrir að ekki hafi tekist að ná sambandi fyrr. Var þá allur viðbúnaður gæslunnar afturkallaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×