Innlent

Tólf mánaða fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás á Spot

Anton Egilsson skrifar
Líkamsárásin átti sér stað á skemmtistaðnum Spot.
Líkamsárásin átti sér stað á skemmtistaðnum Spot. Vísir/Heiða
Karlmaður var dæmdur til tólf mánaða fangelsisvistar fyrir stórfellda líkamsárás á skemmtistaðnum Spot í Kópavogi. Hann gerðist sekur um að hafa hrint manni með þeim afleiðingum að hann hlaut lífshættulega og alvarlega höfuðáverka.

Lögregla var kvödd á skemmtistaðinn Spot í Kópavogi, þar sem tilkynnt hafði verið um að maður væri meðvitundarlaus innan dyra. Þegar lögregla mætti á vettvang var þeim vísað á dansgólfið þar sem maðurinn lá meðvitundarlaus í blóði sínu en mikið blæddi bæði úr höfði og eyra hans.

Vitni kom að tali við lögreglu á skemmtistaðnum og sagðist sá hafa séð árásina. Gat hann bent lögreglumönnunum á árásarmanninn sem þá var á leið út um aðaldyr staðarins. Veitti lögregla manninum eftirför og náðist hann stuttu síðar.

Fram kom í vitnisburði læknis við meðferð málsins að höfuðkúpubrot sem brotaþoli hlaut við að falla í gólfið væri til marks um að honum hefði verið hrint með talsverðu afli.

Kannaðist ekki við ásakanirnar

Fyrir dómi sagðist maðurinn ekki kannast við það sem honum væri gefið að sök í málinu. Frásögn mannsins bar ekki saman við þær frásagnir sem vitni gáfu fyrir dómi. Tvö vitni í málinu báru um það að hafa séð manninn ýta fórnarlambinu af afli eða nokkrum krafti.

Héraðsdómur sakfelldi manninn fyrir stórfellda líkamsárás en í niðurstöðu dómsins segir að fórnarlamb árásarinnar hafi hlotið alvarlega áverka af atlögunni og búi við varanlegar afleiðingar hennar. Þá sé ráðið af framburði vitna að tilefni árásarinnar hafi ekki verið annað en það að fórnarlamb hennar hafi rekist utan í árásarmanninn í mannþrönginni á dansgólfinu.

Hér má lesa Héraðsdóm Reykjavíkur í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×