Innlent

Gönguhópur ræsti bandarískan neyðarsendi á hálendinu

Birgir Olgeirsson skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð til vegna slyssins.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð til vegna slyssins. Vísir/Stefán
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar bárust boð um klukkan tólf í dag að neyðarsendir væri í gangi inni á hálendi Íslands um 75 kílómetrum suður af Akureyri.

Þyrla landhelgisgæslunnar sem stödd var í eftirlitsflugi yfir Húnaflóa var strax beint á vettvang og er væntanleg klukkan 12:50, jafnframt var lögreglu á Norðurlandi eystra gert viðvart sem og Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu sem áætlar að senda björgunarbifreiðar áleiðis á svæðið.

Eftirgrennslan hefur leitt í ljós að um neyðarsendi er að ræða sem skráður er í Bandaríkjunum og hefur stjórnstöð bandaríska flughersins upplýst að um 5 manna gönguhóp sé að ræða og eru þeir ekki með nein önnur fjarskiptatæki svo vitað sé.

Uppfært klukkan 13:10:

Þyrla Landhelgisgæslunnar kom að fimm bandarískum ferðamönnum um klukkan 12:55 á Dragaleið sem er við Sprengisandsleið norðaustur úr Hofsjökli.

Þeir voru allir heilir á húfi en höfðu fest bifreið sína og komust ekki leiðar sinnar.

Þeir brugðu því á það ráð að gangsetja gervihnattar neyðarsendir. Þyrlan flytur fólkið til Akureyrar en björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar eru á leið á svæðið og muna huga að bifreiðinni.

Neyðarsendirinn sem var ræstur er inni á hálendi Íslands, um 75 kílómetrum suður af Akureyri. Það er um það bil á Sprengisandsleið, nærri Laugafellsskála.Vísir/Loftmyndir ehf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×