Innlent

Fjórir nýir slökkviliðsbílar á næstu þremur árum

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Bíllinn bilaði á miðri leið og komst ekki til að slökkva þá elda sem þurfti.
Bíllinn bilaði á miðri leið og komst ekki til að slökkva þá elda sem þurfti.
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu mun fá fjóra nýja slökkviliðsbíla í flota sinn á næstu þremur árum. Er það gert til að bregðast við hækkandi aldri bílaflotans. Einn af slökkviliðsbílum slökkviliðsins bilaði nýverið á leið í útkall í Hafnarfirði. Bilunin kom á versta tíma en bílar frá öðrum stöðvum voru einnig á leiðinni og því kom fjarvera bílsins ekki að sök. „Það bilaði túrbína í bílnum og hann komst því ekki á leiðarenda,“ segir Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri. Búið er að panta nýja túrbínu og sagði Jón Viðar að bíllinn ætti að vera kominn á götuna í næstu viku.

Slökkviliðið er með fjórar slökkvistöðvar á höfuðborgarsvæðinu, í Skógarhlíð, við Tunguháls, við Skútahraun í Hafnarfirði og á Kjalarnesi.

Bílafloti slökkviliðsins er orðinn of gamall en Jón Viðar segir að verið sé að vinna í að yngja flotann upp. „Bílarnr eru orðnir of gamlir. Það er búið að ákveða að kaupa fjóra nýja bíla á næstu þremur árum og vinna þannig í vandanum. Það er bjart fram undan hjá okkur og hér er enginn að stinga höfðinu í sandinn.“

Nýja túrbínan ætti að vera komin hingað til lands fyrir helgi og bíllinn í lag strax í næstu viku.
Samþykkt var að heimila Jóni Viðari að fara í útboðið á stjórnarfundi Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins þann 15. maí í fyrra. Hann segir að bílarnir verði alhliðabílar sem geti sinnt eldi, vatnsleka, slysum og fleira.

„Við vonum að þetta verði boðið út fyrir áramótin og fjórir nýir bílar verði komnir í notkun á næstu þremur árum. Það tekur smá tíma að framleiða svona slökkviliðsbíla því þeir eru ekki teknir beint úr hillunni,“ segir hann. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×