Erlent

Frans Páfi: „Konur munu aldrei verða kaþólskir prestar“

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Frans páfi setti á fót nefnd til þess að rannsaka hlutverk kvenkyns djákna í árkristni.
Frans páfi setti á fót nefnd til þess að rannsaka hlutverk kvenkyns djákna í árkristni. vísir/getty
Frans páfi hefur fullyrt að hann telji að bann rómversk-kaþólsku kirkjunnar við kvenkyns prestum ætti að standa um ókomna tíð. Samkvæmt frétt The Huffington Post er þetta í fyrsta skipti sem páfinn tjáir sig um málið með svo afdráttarlausum hætti.

Frans páfi lét ummælin falla um borð í flugvél en hann var á leið heim til Vatíkansins frá Svíþjóð, þar sem hann var í opinberri heimsókn.

Jóhannes Páll II páfi lagði blátt bann við kvenprestum innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar árið 1994. Þegar sænsk blaðakona spurði Frans um það hvort því yrði hnikað var svar hans á þá leið að slíkt myndi aldrei koma til greina.

Sjá einnig: Páfinn tekur þátt í guðsþjónustu í dómkirkjunni í Lundi

 

Kaþólsk nunna við bænir.mynd/getty
Frans skipaði nefnd til þess að rannsaka hlutverk kvenna

Samkvæmt rómversk-kaþólsku kirkjunni er ástæðan fyrir því að konur geti ekki gegnt embætti prests sú að Jesús kaus sér aðeins karlkyns lærisveina.

Konum sem reyna að fá vígslu til prests getur verið úthýst úr kirkjunni og embættismenn innan kirkjunnar, sem gerast uppvísir um að vígja konur til prests, geta búist við sömu refsingu.

Þrátt fyrir ummæli Frans í dag hefur hann átt þátt í að efla hlutverk kvenna innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Nú í sumar setti hann á fót nefnd fræðimanna sem ætlað er að rannsaka hlutverk kvenkyns djákna í árkristni, en í dag er konum ekki heimilt að gegna embætti djákna.

Vakti þetta átak páfans von í brjóstum kvenna innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar um að viðhorf kirkjunnar til kvenna í djákna- eða prestsembætti væri tekið að mildast. Svo virðist þó ekki vera, ef marka má orð páfans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×