Innlent

Telja að kveikt hafi verið í hafnfirskri snyrtistofu

Gissur Sigurðsson skrifar
Grunur leikur á að kveikt hafi verið í húsnæði snyrtistofu við Dalshraun í Hafnarfirði í nótt, þar sem allt innanstokks eyðilagðist. Ekki varð tjón í öðrum fyrirtækjum í húsinu. Ekki er enn vitað hver þar var að verki.

Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var sent að að húsinu upp úr klukkan tvö í nótt, þar sem mörg fyrirtæki eru til húsa. Brátt kom í ljós að eldurinn var einangraður í hluta hússins þar sem snyrtistofa er til húsa, en þar logaði glatt og voru rúður sprungnar út.

Meðal annars heyrðust litlar sprengingar, líklega þegar úðabrúsar hafa verið að springa, en ekki var talin stafa alvarleg hætta af því. Slökkvistarf gekk greiðlega og náði eldurinn ekki frekari útbreiðslu og héldu eldveggir eins og ætlast er til.

Allt er ónýttt innanstokks í húsnæðinu sem brann, en það er um það bil hundrað fermetrar. Að sögn rannsóknardeildar lögreglunnar í Hafnarfirði eru sterkar vísbenidngar um að eldurinn hafi kviknað af mannavöldum, en engin sérstakur liggur enn undir grun og enginn hefur enn verið yfirheyrður vegna málsins.

Svo illa vildi til að dælubíll, sem var sendur frá stöðinni við Tunguháls, bræddi úr sér á leið á vettvang með nokkra slökkviliðsmenn innanborðs, en það kom ekki niður á slökkvistarfinu, sem gekk vel eins og áður sagði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×