Enski boltinn

Vill rífa niður heimavöll West Ham og byggja nýjan

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ólympíuleikvangurinn í London hentar ekki fyrir fótbolta.
Ólympíuleikvangurinn í London hentar ekki fyrir fótbolta. vísir/getty
Það er alls ekki nægilega mikil ánægja með hinn nýja heimavöll West Ham, London Stadium, sem var upprunalega byggður fyrir Ólympíuleikana í London árið 2012.

Búið er að gera alls kyns breytingar á vellinum til að hann henti fyrir knattspyrnu en það hefur ekki tekist nógu vel að margra mati. Áhorfendur eru of fjarri vellinum og stemningin ekki nógu góð.

Paul Fletcher er sérfræðingur í byggingu knattspyrnuvalla og kom að byggingu nýja Wembley, velli Bolton og fleiri segir að það þurfi að rífa bygginguna niður og byrja upp á nýtt.

„Annað hvort sætta menn sig við þetta ástand næstu 30-40 árin eða menn rífa völlinn niður og byrja upp á nýtt,“ segir Fletcher.

„Það verður eitthvað að láta undan. Ef félagið vill gera áhorfendur ánægða þá verður að rífa völlinn.“

Fletcher var spurður álits er Ólympíuleikvangurinn var byggður en ekki var hlustað á hans álit.

„Ég sagði þá að það ætti að byggja knattspyrnuleikvang sem væri hægt að breyta í frjálsíþróttavöll í tvær vikur. Er ég byggi knattspyrnuleikvang þá eru áhorfendur það sem skiptir mestu máli hjá mér. Þeir hafa reynt að breyta frjálsíþróttavelli í knattspyrnuvöll en þetta hefur ekki gengið upp.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×