Erlent

Facebook í slag við falskar fréttir

Samúel Karl Ólason skrifar
Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook.
Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook. Vísir/AFP
Mikil umræða hefur átt sér stað á undanförnum dögum um hlut Facebook og áhrif falskra frétta á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Mark Zuckerberg lýsti því yfir á dögunum að það væri kjánalegt að halda því fram að falskar fréttir á Facebook hefðu haft áhrif á kosningarnar. Nokkrum dögum síðar lýsti fyrirtækið yfir að til stæði að koma í veg fyrir að forsvarsmenn vefsvæða sem birta falskar fréttir geti grætt á dreifingu á Facebook.

Rannsóknir hafa sýnt að fjölmargar fréttir sem voru beinlínis rangar voru í dreifingu á Facebook síðustu mánuði. Þá hefur komið í ljós að táningar í bæ einum í Makedóníu stunduðu það að skrifa falskar fréttir og koma þeim í dreifingu á Facebook til þess að græða á því.

Táningarnir miðuðu þessar „fréttir“ að stuðningsmönnum Trump þar sem það hafði sýnt sig að þeir væru líklegri til að dreifa fölskum fréttum en aðrir. Buzzfeed fann rúmlega 100 vefsvæði þar sem falskar fréttir voru birtar, sem öllum var stýrt úr frá bænum Veles í Makedóníu.

Nú hefur Mark Zuckerberg sagt frá því að til standi að taka verulega á fölskum fréttum á Facebook. Hann tók þó sérstaklega fram að enginn vilji væri til þess að Facebook yrði einhvers konar úrskurðaraðili um hvað er satt og hvað ekki.

Þess í stað mun fyrirtækið reyna að vinna með utanaðkomandi aðilum til að bera kennsl á upplýsingar sem eru rangar. Þá mun fyrirtækið einnig gera notendum auðveldara að benda á rangar fréttir. Þar að auki mun Facebook ræða við atvinnumenn um hvernig best megi útfæra þau tæknilegu atriði sem felast í því að berjast gegn fölskum fréttum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×