Enski boltinn

Koeman og Van Gaal rifust harkalega: „Við erum ekki vinir“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Handaband en engin vinátta.
Handaband en engin vinátta. vísir/getty
Ronaldo Koeman, knattspyrnustjóri Everton í ensku úrvalsdeildinni, og Louis van Gaal, fyrrverandi stjóri Manchester United, eru ekki vinir og geta ekki starfað saman.

Frá þessu segir Koeman sjálfur í viðtali við Gary Lineker á BBC en brot úr viðtalinu sem verður birt í heild sinni um helgina var sett á Facebook-síðu þáttarins Match of the Day.

Van Gaal gerði Ajax að Evrópumeisturum árið 1995 og var gerður að yfirmanni knattspyrnumála hjá félaginu þegar Koeman var þar við stjórnvölinn frá 2001-2005.

„Við rifumst harkalega um leikstíl liðsins og framtíð félagsins. Þetta voru ekki góðir tímar,“ segir Koeman sem var rekinn frá Ajax í febrúar 2005 eftir að missa af lestinni í baráttunni um hollenska meistaratitilinn og falla úr leik í Evrópukeppni bikarhafa.

„Þetta var vandamálið okkar. Við tökumst í hendur í dag en við erum ekki vinir,“ segir Ronald Koeman.

Koeman og lærisveinar hans í Everton taka á móti Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Swansea þegar enska úrvalsdeildin fer aftur af stað um helgina. Leikurinn fer fram á laugardaginn klukkan 15.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×