Fótbolti

Aspas fyrstur til að skora hjá enskum síðan Kolbeinn sendi þá heim af EM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Joe Hart hefur ekki þurft að sækja boltann í netið síðan Kolbeinn Sigþórsson skoraði á hann í Hreiðrinu í Nice.
Joe Hart hefur ekki þurft að sækja boltann í netið síðan Kolbeinn Sigþórsson skoraði á hann í Hreiðrinu í Nice. vísir/getty
England og Spánn skildu jöfn í vináttulandsleik á Wembley í gærkvöldi, 2-2, en spænska liðið kom til baka úr stöðunni 2-0 og náði að jafna með tveimur mörkum á síðustu mínútunum.

Adam Lallana kom Englandi yfir úr vítaspyrnu á 9. mínútu og Jamie Vardy jók forskotið á 48. mínútu. Iago Aspas, fyrrverandi leikmaður Liverpool, kom Spánverjum til bjargar þegar hann jafnaði metin á 89. mínútu og tryggði svo jafnteflið á sjöttu mínútu í uppbótartíma.

Fyrra mark Aspas var það fyrsta sem enska landsliðið fær á sig síðan Kolbeinn Sigþórsson skoraði sigurmark Íslands gegn Englandi í Hreiðrinu í Nice í 16 liða úrslitum EM 2016 í Frakklandi.

Eftir það hélt England hreinu í fjórum leikjum í röð í undankeppni HM 2018 þar sem það trónir á toppi síns riðils með tíu stig. Liðið er búið að halda hreinu gegn Slóvakíu og Slóveníu á útivelli og gegn Möltu og Skotlandi á heimavelli.

Joe Hart, aðalmarkvörður enska liðsins, hefur ekki enn fengið á sig mark í landsliðstreyjunni síðan hann missti skot Kolbeins undir sig í Frakklandi. Hann stóð vaktina í öllum fjórum leikjunum í undankeppninni og var svo tekinn út af í hálfleik í gær.

Eftir að Hart fékk á sig markið á 18. mínútu í Nice er hann búinn að halda enska markinu hreinu í 477 mínútur. Tom Heaton, markvörður Burnley, kom inn á í hálfleik í gær og fékk á sig mörkin tvö sem Iago Aspas, leikmaður Celta Vigo á Spáni, skoraði.


Tengdar fréttir

Óvissa um meiðsli Lallana

Stuðningsmenn Liverpool bíða fregna Adam Lallana sem meiddist í vináttulandsleik í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×