Erlent

Fyrrverandi aðalritstjóri Se og Hør dæmdur til fangelsisvistar

Atli Ísleifsson skrifar
Henrik Qvortrup var aðalritstjóri blaðsins á árunum 2001 til 2008.
Henrik Qvortrup var aðalritstjóri blaðsins á árunum 2001 til 2008. Vísir/Getty
Dómstóll í Danmörku dæmdi í morgun Henrik Qvortrup, fyrrverandi aðalritstjóra slúðurblaðsins Se og Hør, í fimmtán mánaða fangelsi fyrir að hafa átt í viðskiptum við hakkara sem stal kortaupplýsingum frægs fólks. Blaðið vann svo fréttir upp úr kortafærslum fólksins.

Ken B. Rasmussen, fyrrverandi blaðamaður á Se og Hør, greindi frá því í bók árið 2014 að á þeim tíma sem hann starfaði á blaðinu, hefði blaðið verið með hakkara á sínum snærum sem seldi blaðinu kortaupplýsingar 163 frægra manna.

Hakkarinn starfaði hjá IBM og seldi meðal annars upplýsingar um leikarana Mads Mikkelsen og Pelle Hvenegaard, forsætisráðherrann Lars Løkke Rasmussen, Jóakim prins, lögmanninn og viðskiptamanninn Rigmor Zobel, og Lene Nystrøm, söngkonu Aqua, á árunum 2002 til 2008.

Upplýsingarnar í bók Rasmussen urðu til þess að lögregla rannsakaði málið og var að lokum gefin út ákæra. Réttarhöldin hófust svo í vor.

Í frétt Politiken segir að Qvorntorp þurfi að sitja inni í þrjá mánuði, en síðustu tólf mánuðirnir eru skilorðsbundnir og falla niður að tveimur árum liðnum, haldi hann almennt skilorð.

Þá var Qvorntorp dæmdur til að greiða 365 þúsund danskar krónur, tæpar sex milljónir króna, í skaðabætur.

Tveir fyrrverandi fréttamenn á blaðinu hlutu jafnframt fjögurra mánaða skilorðsbundna dóma. Fyrrum aðalritstjórinn Kim Henningsen, sem hætti árið 2012, fékk eins árs skilorðsbundinn dóm.

Qvortrup var aðalritstjóri blaðsins á árunum 2001 til 2008.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×